Lendingarbúnaður flugvélarinnar var glænýr

Lendingarbúnaðurinn var einungis búinn að vera í notkun í nokkrar …
Lendingarbúnaðurinn var einungis búinn að vera í notkun í nokkrar vikur áður en atvikið varð. Ljósmynd/Aðsend

Lendingarbúnaður Boeing-flugvélar Icelandair, sem brotnaði skömmu eftir lendingu á Keflavíkurflugvelli á föstudaginn, var nýr. Flugvélin fór í reglubundna skoðun í Kanada 19. nóvember síðastliðinn þar sem eldri lendingarbúnaði var skipt út fyrir nýjan. Þetta staðfestir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Neyðarástandi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli síðdegis á föstudag þegar hjólabúnaður flugvélarinnar brotnaði skömmu eftir að vélin, sem var að koma frá Berlín, lenti á flugvellinum. Um 166 manns voru um borð í vélinni en allir sluppu ómeiddir.

Flugvélin sem um ræðir, TF-FIA, var framleidd árið 2000 og því orðin 20 ára gömul en lendingarbúnaðurinn var nýr og hafði einungis verið í notkun í nokkrar vikur þegar atvikið átti sér stað. Þetta staðfesti Bogi í viðtali við fréttastofu RÚV.

Flaug sextíu ferðir áður en hann brotnaði

„Já hann var nýr. Það var skipt um hann í þessari skoðun. Það er skipt um lendingarbúnað í flugvélum á ákveðnu árabili og í þessari skoðun var kominn tími á það með þessa vél,“ sagði Bogi.

Eftir að vélin sneri til baka frá Kanada var hún tekin aftur inn í leiðakerfi Icelandair í byrjun janúar og flaug rúmlega 60 ferðir áður en lendingarbúnaðurinn brotnaði á föstudaginn.

Eitthvað vantaði í lendingarbúnaðinn

Flugvefmiðillinn Aviation Herald fjallaði um atvikið á vefsíðu sinni í gær og þar er fullyrt að mikilvægan bolta hafi vantað í lendingarbúnaðinn. Bogi gat ekki tjáð sig um hvort það væri rétt en sagði að það yrði rannsakað eins og allt sem varðar atvikið.

Ragnar Guðmundsson, stjórnandi rannsóknarinnar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, segir það rangt að það hafi vantað mikilvægan bolta í lendingarbúnaðinn.

„Það eru hlutir sem við erum við erum að rannsaka en það er ekki rétt það sem sagt er í fréttinni að það hafi vantað mikilvægan bolta. Ég er ekki til í að tjá mig á þessu stigi hvað það er sem vantaði,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Mun hafa óveruleg áhrif næstu vikur

Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is hefur frá Icelandair er verið að vinna að því hvernig tekist verður á við það að missa flugvélina úr leiðakerfi Icelandair en sá missir mun hafa óveruleg áhrif næstu vikurnar að minnsta kosti.

Það er þó enn of snemmt að segja til um hvort og þá hvenær vélin muni fljúga aftur enda skemmdist hún mikið. 

Rannsókn gæti tekið langan tíma

Rannsóknin gæti tekið langan tíma en Ragnar segir of snemmt að segja til um hversu langan tíma hún gæti tekið en eitt ár þyki frekar lítill tími fyrir svona umfangsmikla rannsókn. 

Miðað við reynslu segir hann rannsóknina geta tekið frá einu ári til þriggja ára. Það þurfi að taka hluti og senda í rannsóknir erlendis sem geti oft tekið langan tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert