Mikil geðshræring á meðal farþega Icelandair

Vél Icelandair á leið til Manchester frá Keflavík lenti í mikilli ókyrrð vegna stormsins Ciara sem gengur nú yfir Bretlandseyjar. Þurfti að snúa vélinni við og var henni lent í Glasgow.

RÚV greinir frá því að fljúga átti vélinni aftur til Íslands en farþegar um borð hafi neitað að fljúga aftur. Mikil geðshræring greip um sig meðal farþega þegar vélinni var lent, fólk grét og vildi ekki að vélinni yrði flogið að nýju til Íslands. 

Farþegar vélarinnar eru núna komnir frá borði í Glasgow samkvæmt samfélagsmiðlum flugvallarins. 

Samkvæmt Þorkeli Ágústssyni, verkfræðingi hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, hefur atvikið verið tekið til rannsóknar ásamt því að breska rannsóknarnefndin hafi verið upplýst um málið. 

Veðurviðvar­an­ir sem eru í gildi víða á Englandi og í Wales til klukk­an 21 að staðar­tíma í kvöld kveða á um að brak og mik­ill öldu­gang­ur gæti ógnað lífi fólks fari það ekki var­lega. Þá er al­menn gul veðurviðvör­un í gildi fyr­ir allt Bret­land fram að miðnætti í kvöld. Vind­hviður hafa sums staðar farið upp fyr­ir 42 metra á sek­úndu.

Einn farþegi vélarinnar greinir frá upplifun sinni á Twitter. Segir hún flugmann vélarinnar hafa viljað fljúga aftur til Íslands til að koma vélinni þangað. Þá hafi hún aðgang að bifreið sem hún geti ekið aftur til Manchester og eigi það við um fleiri farþega. 

Á Twitter-síðu Icelandair kemur fram að flugfélagið setji öryggi farþega og starfsmanna í forgang og sé allt gert til að tryggja það. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert