Vélin hefur verið ferjuð til Íslands

Upplýsingafulltrúi Icelandair segir að vél félagsins sem lenda þurfti í Glasgow vegna veðurs hafi verið ferjuð til Íslands við fyrsta tækifæri. 

Flug Icelanda­ir FI440 á leið til Manchester frá Kefla­vík lenti í mik­illi ókyrrð vegna storms­ins Ciara sem geng­ur nú yfir Bret­lands­eyj­ar. Þurfti að snúa vél­inni við og var henni lent í Glasgow. Mikil geðshræring greip um sig meðal farþega þegar vélinni var lent, fólk grét og vildi ekki að vélinni yrði flogið að nýju til Íslands. 

„Eðli málsins samkvæmt var farþegum nokkuð brugðið. Flugstjóri vélarinnar tilkynnti, eftir að vélin var lent, að til stæði að bíða í Glasgow eftir betri veðurskilyrðum og fljúga þá annaðhvort til Manchester eða aftur til Íslands. Sumir farþega óskuðu aftur á móti eftir því að fara frá borði og koma sér á eigin vegum til Manchester. Icelandair hefur á því fullan skilning í ljósi þessara aðstæðna og ekki var langt að fara landleiðina, þó að hluti almenningssamgangna hafi legið niðri í dag vegna veðurs,“ segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair. 

„Var því ákveðið að enda ferðina í Glasgow og koma fólki frá borði. Icelandair hefur boðið farþegum að greiða fyrir ferðalag þeirra frá Glasgow til Manchester. Öðrum farþegum var boðin hótelgisting í Glasgow eins og venja er þegar flugvélar þurfa að lenda annars staðar en á áfangastað. Vélin var svo ferjuð til Íslands við fyrsta tækifæri,“ segir Ásdís.

Þá segir Ásdís að öryggi og þægindi farþega séu í fyrirrúmi hjá flugfélaginu og að öllum farþegum verði veitt viðeigandi aðstoð og eftirfylgni. Þá var flugi FI441, sem áætlað var í dag frá Manchester til Keflavíkur, aflýst vegna veðurs og er nú unnið að því að endurbóka alla farþega í flug á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert