„Ábyrgðin er öll hjá borginni“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er ekki sérstaklega bjartsýn á að kjaradeila félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg leysist áður en til ótímabundins verkfalls kemur mánudaginn 17. febrúar. Hún bindur þó ákveðnar vonir við að sjálfsbjargarviðleitni stjórnmálamanna verði á endanum til þess að komið verður til móts við kröfur Eflingarfólks.

„Það er ekki búið að boða annan fund, en þessi vika er þó bara rétt að hefjast. Þannig að akkúrat núna á þessum morgni er ég ekki tilbúin að segja hvað verður. En ef það fer ekki eitthvað að gerast núna mjög hratt, þá er það augljóst fyrir mér, eins og það er fyrir öllum öðrum að þá er þessi dagur að fara að renna upp, þegar ótímabundið verkfall hefst,“ segir Sólveig í samtali við mbl.is rétt áður en 60 klukkustunda verkfall Eflingar í borginni skellur á. Í gær var samningafundi frestað því ríkissáttasemjari taldi það ekki skila árangri að funda eins og staðan var þá. Annar fundur hefur ekki verið boðaður, en Sólveig vísar á borgina. Ábyrgðin liggi þar.

„Enn jafn undrandi

„Ábyrgðin er öll hjá borginni, ábyrgðin er öll hjá samninganefnd Reykjavíkurborgar, ábyrgðin er gríðarlega mikil sem borgarstjóri og félagar hans í meirihlutanum þurfa að horfast í augu við. Að hafa látið þessar viðræður ganga mánuðum saman algjörlega án þess að neitt væri að gerast. Án þess að neinn vilji eða neinn áhugi kæmi fram frá þeim til þess að setja sig inn í málin. Til að reyna að vinna með okkur að því að reyna að finna einhverja lausn. Ég áttaði mig á þessu fyrir löngu síðan en ég er enn jafn undrandi og hugsi yfir því hvernig það má vera að þau virðast í alvöru hafa verið búin að telja sjálfu sér trú um það að við myndum ekki ætla að reyna að berjast fyrir bættum kjörum og bættum vinnuaðstæðum og svo framvegis.“

Sólveig segist hljóta að spyrja sig að því hvernig það megi vera. Svo virðist sem ekkert hafi verið hlustað á það sem láglaunafólk hafi verið að segja undanfarin ár.

„Hefur þetta fólk ekki fylgst með þróuninni inni á þessum umönnunarstofnunum? Hefur þetta fólk ekki fylgst með þróuninni á húsnæðismarkaði í Reykjavík? Veit þetta fólk ekkert hvað er að gerast í kringum það? Fylgist þetta fólk ekkert með lífskjörum þeirra sem halda þó hér uppi grundvallarþjónustu, sem þetta fólk, þegar það er í kosningaham, talar fjálglega og stöðugt um og notar markvisst í sinni pólitísku baráttu? Það notar til dæmis leikskólana markvisst til að afla sér atkvæða, en þegar kemur að því að snúa sér að fólkinu sem vinnur þarna inni og sýna þeim virðingu og að það sé hægt að mæta á einhverjum jafningjagrundvelli, þá lætur þetta fólk sig hverfa og kastar frá sér allri pólitískri ábyrgð. Hvernig dirfist þetta fólk?“

Sólveig segir það hafa mátt vera ljóst fyrir mánuðum síðan að ekkert væri að koma frá samninganefnd Reykjavíkurborgar sem hægt væri að bjóða Eflingarfólki upp á. „Það er ekkert samtal í gangi og það var ekki hægt að koma því af stað sökum viðhorfanna sem við urðum fyrir.“

Hún segist þó ætla að trúa því, vegna alvarleika málsins, að samninganefnd Reykjavíkurborgar sitji núna við og reyni að útbúa eitthvað sem hægt sé að bjóða upp á á næsta samningafundi. „Eitthvað sem þau geta fært okkur til þess að alvöru, raunverulegt, djúpt samtal geti átt sér stað. Þessi leikur og þessi fáránlega staða, að við verðum ekki látin þola þetta lengur.“

„Getum kannski vonað að sjálfsbjargarviðleitnin taki við

Þannig að þú trúir því að það komi eitthvað frá borginni áður en til ótímabundins verkfalls kemur?

„Ef ég horfi yfir það sem gengið hefur á, horfi yfir stöðuna, þá myndi ég segja nei, ég trúi því ekki. Vegna þess að það bendir ekkert til þess að það sé arða af skynsemi eða getu til að átta sig á stöðunni og raunveruleikanum eins og hann blasir við. En svo hugsa ég, borgarstjóri er náttúrulega stjórnmálamaður, þannig að við getum kannski vonað að sjálfsbjargarviðleitnin taki við og það verði hún sem geri það að verkum að eitthvað loksins gerist. Vegna þess að það er augljóst að það dugir alla vega ekki til að við drögum fram allar þessar staðreyndir og bendum á stöðuna eins og hún er. Það ber engan árangur. En sjálfsbjargarviðleitni stjórnmálafólks getur verið máttugt afl. Það er það sem á endanum ég trúi að geti komið okkur eitthvað áfram.“

Engin verkfallsvarsla í dag

Hvað varðar verkföllin fram undan segir Sólveig Eflingarfólk verða tilbúið í næstu daga. Engin verkfallsvarsla fer þó fram í dag, en hún verður á morgun og fimmtudag.

„Við erum mjög vel undirbúin fyrir þetta. Við sáum það þegar við vorum í verkfallsvörslu á fimmtudaginn í síðustu viku að sú nálgun sem við erum með hún er mjög „effective“. Við fórum í fimm hópum og náðum að heimsækja meira en 100 vinnustaði.“

Þær leiðbeiningar og kröfur sem settar hafi verið fram til borgarinnar, um það hvað má og hvað má ekki, virðast hafa skilað sér til yfirmanna. Það hafi þó aðeins þurft að „pota“ að sögn Sólveigar. „En við urðum ekki vör við eiginlega nein brot og það sem við urðum vör við var þá sökum misskilnings en ekki vegna einbeitts brotavilja. Ég reikna með því að það verði áfram svoleiðis.“

Nánast allar undanþágubeiðnir samþykktar

Undanþágunefnd samninganefndar Eflingar við Reykjavíkurborg fundaði lengi í gær þar sem farið var yfir allar undanþágubeiðnir frá velferðarsviði borgarinnar og þær nánast allar samþykktar. Þær beiðnir sem var hafnað voru þess eðlis að þær vörðuðu ekki nein grundvallarmál, að sögn Sólveigar.

„Við viðurkennum auðvitað að við erum fólkið sem sinnir þessum störfum og í undanþágunefndinni eru manneskjur sem hafa starfað og starfa inni á stofnunum sem sinna gömlu fólki. Þannig að allar okkar ákvarðanir eru teknar að mjög vel athuguðu máli. Við höfum það að algjöru grundvallarsjónarmiði þarna inni að tryggja svokallaðar grundvallarþarfir eins og næringu, aðstoð við lyfjainntöku þegar það á við og svo framvegis. Við heimilum ekki þvotta, uppvask og böðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert