Reyna að sjá slysin fyrir með sérstöku forriti

Gísli Níls Einarsson er sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS.
Gísli Níls Einarsson er sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS. Ljósmynd/Aðsend

Samkvæmt gögnum frá embætti landlæknis verða árlega hér á landi um 5.600 vinnuslys og 2.000 slys á skólabörnum eða um 20 slík slys á dag að meðaltali. Tryggingafélagið VÍS hefur verið að nota og þróa sérstakt forrit, sem heitir ATVIK, í þeim tilgangi að bæði halda utan um skráningu slíkra slysa og koma í veg fyrir þau.

„Gögnin byggja á skráningum frá flestum heilbrigðisstofnunum landsins og Vinnueftirlitinu sem og einhverjum tryggingafélögum. Í langflestum tilvikum hefur þurft einhvers konar meðhöndlun inni á heilbrigðisstofnun þannig að þetta eru alvarlegri slys en það að fá einhverjar skrámur á hné,“ segir Gísli Níls Einarsson, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS, í samtali við mbl.is.

Gísli verður með fyrirlestur sem ber nafnið Skrefi á undan ATVIKum á forvarnaráðstefnu VÍS sem haldin verður á Hilton Reykjavík Nordica-hótelinu á morgun. Þar fer hann yfir hvernig hægt sé að vera skrefi á undan slysunum og koma í veg fyrir þau.

Á bak við tölfræðina er fólk

„Það gleymist oft þegar við erum að tala um tölur, að á bak við þessar tölur er fólk – þetta eru aldraðir, fullorðnir og börn sem eru að slasa sig og þetta hefur áhrif á líf fólks. Ef þetta eru alvarleg slys þá hafa þau líka alvarleg áhrif á aðstandendur – börn og ættingja – en fólk meðtekur það ekki alltaf nema það sé einhver nákominn sem lendir í slysinu,“ bendir hann á og bætir við að oft gleymist að horfa á afleiðingar og áhrif slysa í stærra samhengi.

„Svo varðandi vinnuslysin, þar sem velferð hins slasaða er auðvitað það mikilvægasta, þarf líka að horfa á tapaðar vinnustundir fyrir fyrirtækin og svo þarf mögulega að finna nýjan starfsmann og þjálfa hann upp. Svo það er líka samfélagslega óhagkvæmt að starfsmenn séu ekki að vinna.“

Bæði miðlægur gagnagrunnur um slys og ábendingakerfi

Ástæðan fyrir því að VÍS fór í forvarnasamstarf með sveitarfélögum og fyrirtækjum við að búa til forrit sem heldur utan um skráningar á bæði alvarlegum slysum og líka minni háttar slysum, á bæði starfsfólki og skólabörnum, er að minni háttar slysin eru oft undanfari alvarlegra slysa. Gísli segir að það hafi algjörlega vantað miðlægt kerfi eða gagnagrunn sem hélt utan um atvikin.

„Þess vegna fórum við í þessa vinnu árið 2013 að búa til þetta forrit sem heldur utan um öll þessi slys. Þar er einnig hægt að skrá inn ábendingar þannig að hægt sé að benda á hluti áður en slys verður,“ segir Gísli og tekur dæmi um holu á skólalóð sem hægt er að skrá inn í kerfið og láta lagfæra áður en einhver dettur í hana.

„Hugmyndin var sú að finna leiðir til að hjálpa viðskiptavinum okkar að koma í veg fyrir slys eða tjón í starfsemi sinni – það er samfélagslegur ávinningur fyrir alla,“ bætir hann við.

Ákall um frekari valmöguleika eftir MeToo-byltinguna

Þrátt fyrir að vinnan hafi byrjað árið 2013 er þróun kerfisins hvergi nærri lokið. Eftir MeToo-byltinguna var ákall um að bæta við valmöguleika í ATVIK þannig að hægt væri að tilkynna um einelti eða kynferðislega áreitni í forritinu.

„Núna er sá valmöguleiki til og heitir ÓGN. Það er hægt að tilkynna atvik bæði undir nafni og nafnlaust. Að sama skapi geta þeir sem verða vitni að slíkum atvikum tilkynnt þau,“ bætir hann við.

Þá er einnig búið að þróa sérstakt forrit fyrir sjávarútveginn og í dag hafa um 800 sjómenn aðgang að kerfinu. Í heildina eru um fjórða tug viðskiptavina VÍS sem hafa um 16.000 starfsmenn í vinnu með aðgang að forritinu. Þá heldur kerfið utan um skráningu slysa hjá 12.000 skólabörnum á landvísu.

VÍS gefur viðskiptavinum sínum forritið og hefur engan aðgang að gögnum sem eru skráð þar inn. Þá hafa einungis þeir yfirmenn eða starfsmenn sem eru sérstaklega skilgreindir í kerfinu aðgang að skráningum um einstök eða viðkvæm atvik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert