Nýtt skipulag á umdeildri lóð

Húsin sem verða rifin sjást til vinstri á myndinni. Í …
Húsin sem verða rifin sjást til vinstri á myndinni. Í þeirra stað mun rísa sjö hæða bygging með 65 íbúðum. Þar beint á móti, austan megin Nóatúns, stendur stórt fjölbýlishús, Mánatún 7-17. Íbúar þar mótmæltu harðlega. Þessi mikla byggð við Borgartún 24 myndi rýra verðmæti eigna þeirra. Morgunblaðið/Sisi

Meirihluti borgarráðs hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Borgartún 24. Á umræddri lóð, sem er á horni Borgartúns og Nóatúns, stendur til að rífa eldri byggingar og byggja í stað þeirra sjö hæða hús með 65 íbúðum auk verslunar- og þjónusturýmis, alls um 16 þúsund fermetra.

Fyrirhugaðar breytingar hafa valdið deilum í mörg ár og íbúar og lóðarhafar í nágrenninu hafa sent inn mótmæli. Sérstaklega voru íbúar í Mánatúni 7-17 (92 íbúðir) mótfallnir þessum áformum og töldu háhýsi á reitnum rýra lífsgæði og sömuleiðis rýra verðmæti eigna þeirra. Þessi mikla uppbygging í Borgartúni 24 hafi komið þeim í opna skjöldu, enda hafi þeim verið kynnt árið 2014 að þarna myndi rísa miklu lágreistari byggð. Íbúðirnar við Mánatún eru austanmegin Nóatúns, gegnt lóðinni sem til stendur að byggja á.

Leyft að rífa allar byggingar

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti árið 2018 breytt deiliskipulag lóðarinnar Borgartúns 24. Í fyrra var að beiðni lóðarhafa auglýst nýtt deiliskipulag fyrir lóðina. Samkvæmt því verður leyfilegt að rífa allar byggingar á lóðinni í stað aðeins bakhúsa áður. Þar á meðal verður heimilt að rífa þriggja hæða verslunar- og skrifstofubyggingu fremst við götuna. Í því húsi eru nú starfandi a.m.k. 12 fyrirtæki samkvæmt upplýsingum á ja.is.

Athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna bárust frá eigendum í Mánatúni og fulltrúum Smith&Norland hf. (handhafi Nóatúns 4 og Borgartúns 22) og Regins hf. (eigandi Borgartúns 20).

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur svaraði athugasemdunum lið fyrir lið og mælti með að deiliskipulagið yrði samþykkt óbreytt að mestu leyti. Ekki var fallist á þau rök íbúa við Mánatún að breytingin kallaði á aukin óþægindi fyrir íbúa svo sem aukna loft-, ljós- og hljóðmengun, auk óþæginda á framkvæmdatíma.

Nánari umfjöllun um málið má sjá í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert