„Skylda okkar að veita þessum dreng skjól“

Ardeshir, Shokoufa og Maní komu hingað til lands 5. mars …
Ardeshir, Shokoufa og Maní komu hingað til lands 5. mars 2019. Þau eru frá Íran. Ljósmynd/No Borders Iceland

Barnið sem nú á að vísa frá Íslandi hefur upplifað öryggi í sínu nærumhverfi hér. Það getur ekki gengið að slíku öryggi í flóttamannabúðum í Portúgal og enn síður í heimalandi sínu, Íran“, segir í opnu bréfi til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, frá kennurum í Hlíðaskóla. 

Tilefni bréfsins er fyrirhuguð brottvísun hins 17 ára gamla Manís, transdrengs frá Íran sem hefur búið hér á landi ásamt fjölskyldu sinni í tæpt ár. Vísa á fjölskyldunni burt á mánudag.

„17 ára barn sem kom með foreldrum sínum til landsins bíður þess að vera sent til baka til Portúgal, en þaðan má búast við að fjölskyldan verði send til Íran. Í þriðju grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um að þegar gerðar séu ráðstafanir, sem varði börn, skuli ávallt það hafa forgang sem barni er fyrir bestu. Barnið sem nú á að senda burt frá Íslandi er trans drengur“, segir í bréfinu. 

Mun óttast um líf sitt

Þar kemur fram að transbörn séu í meiri hættu en önnur börn þegar komi að félagslegri einangrun og ofbeldi. 

„Öryggi barna í samfélaginu varðar okkur öll og því er það skylda okkar að veita þessum dreng skjól. Í frásögnum fjölmiðla höfum við getað lesið að foreldrar sjá jafnvel ástæðu til þess að flytja frá einu byggðalagi til annars til þess að trans barn njóti öryggis í nærumhverfi sínu.“

Kennararnir, Hildur Heimisdóttir, Anna Flosadóttir, Hjalti B. Valþórsson, Rakel Guðmundsdóttir og Þórey Þórarinsdóttir, hvetja að lokum stjórnvöld til þess að „endurskoða ákvörðun sína um að senda trans barn, sem nú býr við öryggi í samfélagi sínu, í aðstæður þar sem það mun án efa óttast um líf sitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert