Vísa 17 ára transdreng úr landi

Ardeshir, Shokoufa og Maní komu hingað til lands 5. mars …
Ardeshir, Shokoufa og Maní komu hingað til lands 5. mars 2019. Þau eru frá Íran. Ljósmynd/No Borders Iceland

Vísa á Maní, 17 ára gömlum transdreng, og fjölskyldu hans úr landi á mánudag. Maní og fjölskylda hans eru frá Íran en þau komu hingað til lands á flótta undan ofsóknum. Tæplega 5.000 manns hafa skrifað undir áskorun þar sem stjórnvöld eru hvött til að skoða mál fjölskyldunnar betur. Mótmæli eru fyrirhuguð vegna þessa á morgun. 

No Borders Iceland greina frá þessu á Facebook síðu sinni. 

Þar segir að fjölskyldan hafi leitað hingað vegna þess að Ísland eigi að vera öruggt fyrir börn, konur og hinsegin fólk. Á leiðinni til landsins fóru þau í gegnum Portúgal og dvöldu þar í eina viku. Nú á að vísa þeim aftur þangað.

„Mál þeirra hefur ekki verið rannsakað sem skyldi, meðal annars fékk Maní aldrei að tjá sig um eigin málefni en það er bæði brot á 10. gr útlendingalaga og 12. gr. barnasáttmálans“, segir í færslu No Borders. 

„Maní er mjög hræddur og bað vinkonu sína um að hjálpa sér að byrja undirskriftarlista til að biðla til stjórnvalda um að skoða mál þeirra betur.“

Hefur eignast góða vini í FSS

Áskorun hefur nú verið sett í loftið þar sem skorað er á stjórnvöld að skoða málið betur. Tæplega 5.000 manns hafa skrifað undir áskorunina.

„Maní gengur í Fjölbrautarskóla Suðurnesja þar sem hann hefur eignast góða vini og hefur hér fengið sálfræðilega aðstoð sem hefur hjálpað honum mikið“, segir í áskoruninni.

Þar segir sömuleiðis að Maní sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem transstrákur.

„Hérlendis hefur Maní komist í samband við hinsegin samfélagið á Íslandi og fengið þaðan stuðning, auk þess sem trans fólk nýtur töluvert meiri réttinda hérlendis en í bæði Portúgal og Íran.“

Yfirvöld pyntuðu og handtóku fjölskylduföðurinn

Samkvæmt áskoruninni leita írönsk yfirvöld að fjölskylduföðurnum, Ardeshir, í Portúgal en hann var handtekinn og pyntaður í Íran fyrri trúarlegt athæfi sem samræmdist ekki stefnu yfirvalda. Hafa stjórnvöld hótað bæði Maní og móður hans, Shokufa, ofbeldi. 

Fjölskyldan er þess fullviss að hún verði send aftur til Íran frá Portúgal og því sé öryggi þeirra stefnt í mikla hættu. 

„Íslenska ríkisstjórnin hefur gefið út að Ísland eigi að vera besta land í heimi fyrir börn. Ég bið ykkur um að sýna það í verki“, er haft eftir Maní í áskoruninni. 

Mótmæli eru fyrirhuguð vegna brottvísunarinnar. Þau verða fyrir utan dómsmálaráðuneytið á morgun, sunnudag, frá klukkan þrjú til fjögur síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert