Forsendur fyrir lífskjarasamningunum ekki brostnar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir forsendur fyrir aðkomu stjórnvalda að lífskjarasamningunum ekki brostnar. „Stjórnvöld munu standa við þær aðgerðir sem við boðuðum við undirritun lífskjarasamninga. Ég vona að sjálfsögðu að lausn finnist á þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir og sömuleiðis er unnið að því hörðum höndum að finna lendingu í kjarasamningum við opinbera starfsmenn, en ekkert hefur breyst í því að stjórnvöld munu standa við þær aðgerðir sem við boðuðum í tengslum við undirritun lífskjarasamninga,“ sagði Katrín í svari við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn spurði hvernig það gæti staðist að stéttarfélög sem lögðu upp með kjarasamning fyrir ári með stöðugleikann að grundvelli gætu svo með verkfallsaðgerðum reynt að brjóta markmið samningsins án þess að það hefði áhrif á aðkomu stjórnvalda. Sagði Þorsteinn það ljóst að hefðbundið höfrungahlaup myndi hefjast ef forsendur lífskjarasamninganna yrðu brostnar í kjaraviðræðum við hið opinbera.

Katrín sagði ljóst að hagsmunir mismunandi stéttarfélaga væru mismunandi og benti á að á Íslandi væri mikill tekjujöfnuður og almennt há laun. Sem gerði það að verkum að þegar deilt væri um hvernig meta ætti menntun til launa þá stönguðust á ákveðin sjónarmið mismunandi stéttarfélaga. Aðilar hafi hins vegar sameinast um það með lífskjarasamningunum að þeir vildu forgangsraða launahækkunum lægst launuðu hópanna og aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðuðu í sömu átt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert