Spyr hvort umfjallanir séu eðlilegt ástand

Helgi Hrafn spyr af hverju það megi ekki bara skoða …
Helgi Hrafn spyr af hverju það megi ekki bara skoða mál ef við viljum það. mbl.is/Hari

Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata spurði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að því í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag hvort það væri eðlilegt ástand að við vendumst reglulegum fjölmiðlaumfjöllunum um einstök mál fólks sem sækti um vernd hér á landi. Mál sem fólk væri sammála um að væru fráleit væru þau skoðuð efnislega. Vísaði hann til máls Manís, 17 ára transpilts frá Íran sem til stóð að senda úr landi, en því var frestað vegna slæms andlegs ástands hans. Hann var lagður inn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans þar sem læknar leggjast gegn því að hann verði sendur úr landi.

Helgi spurði jafnframt að því af hverju ekki mætti skoða mál hvers og eins þrátt fyrir að fólk uppfyllti ekki undanþáguákvæði frá Dyflinnarreglugerðinni. „Af hverju getum við ekki bara tekið þessi mál til efnismeðferðar af því við viljum það? Ef 17 ára transpiltur frá Íran vill fá hæli hér, þá viljum við það líka.“

Helgi sagði að þegar svona mál kæmu upp í fjölmiðlum væru gerðar smávægilegar breytingar á lögunum sem hefðu áhrif á málið sem væri í umræðunni hverju sinni. Þrátt fyrir það hefðu sambærileg mál verið að koma upp og þeim mótmælt árum saman. Helgi spurði hvort það væri ekki kominn tími til að íslensk stjórnvöld settu sér einhverja stefnu í málefnum útlendinga sem fælu meðal annars í sér að hægt væri að hleypa fólki inn sem væri í þessum aðstæðum, frekar en að halda fólki frá landinu með öllum lagatæknilegum úrræðum.

Áslaug Arna segir aldrei fleirum hafa verið veitt vernd hér …
Áslaug Arna segir aldrei fleirum hafa verið veitt vernd hér á landi en á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug sagði í svari sínu að vissulega væru slíkar fjölmiðlaumfjallanir ekki eðlilegt ástand. Sagði hún að kerfið ætti að vera byggt þannig að fólki væri svarað hratt og örugglega og þeir sem væru í mestri neyð fengju hér vernd. Sérstakri kærunefnd hafi verið komið á fót til að meta alla þætti málsins, svo ráðherra fengi ekki geðþóttaákvarðanir eða einstök mál inn á sitt borð. Þá væri hægt að óska eftir endurupptöku á grundvelli nýrrar stöðu eða rangra upplýsinga. „Reglurnar eiga að vera skýrar og stöðugar og það á að vera gegnsæi í því hvernig meðferð mála er og við eigum að forgangsraða í þágu þeirra sem þurfa á vernd að halda og við höfum aldrei veitt fleirum vernd en akkúrat í fyrra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert