Framtíðarhorfur áliðnaðar skipti miklu máli

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta er þjóðhagslega mikilvæg grein og framtíðarhorfur hennar hér á landi skipta miklu máli,“ segir Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar. Fjallað var um áhrif áliðnaðarins á íslenskt hagkerfi og efnahagslíf á nefndarfundi í morgun.

Eins og greint var frá í síðustu viku verður álveri Rio Tinto í Straumsvík mögulega lokað á næstu mánuðunum. Forsvarsmenn Rio Tinto og Landsvirkjunar funda á næstunni um framtíðina í Straumsvík.

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er hægt að færa sterk rök fyrir því að núverandi kaupendur séu sennilega vænlegustu viðskiptavinirnir,“ segir Þorsteinn og bendir á að það sé vegna þess að fyrirtækið þarf ekki að fjárfesta mikið til að nýta raforkuna. Hið sama eigi ekki við um mörg önnur fyrirtæki.

Þorsteinn tekur undir með Þórdísi Kol­brúnu Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og ný­sköp­un­ar sem sagði í síðustu viku að boltinn væri hjá Landsvirkjun og Rio Tinto:

„Landsvirkjun er best treystandi til að meta það í viðræðum við viðkomandi fyrirtæki hvort ástæða sé til endurskoðunar eða aðgerða til skemmri eða lengri tíma. Persónulega sýnist mér það ekki kalla á nein opinber inngrip,“ segir Þorsteinn og heldur áfram:

„Landsvirkjun og eigendur álversins í Straumsvík eiga í samtölum og það er hinn rétti og eðlilegi farvegur. Það þýðir ekki að það þurfi neina aðkomu eða inngrip af hálfu stjórnvalda eða stjórnmálanna sem slíkra. Það er aldrei heppilegt þegar stjórnmál fara að blanda sér í viðskiptaviðræður.

Þingmaðurinn hefur hins vegar áhyggjur af kólnandi hagkerfi og sagði slíkar áhyggjur hafa komið fram hjá fulltrúa Hagstofunnar og Samtaka iðnaðarins á fundinum. Stjórnvöld geti lagt sitt af mörkum til að skapa hagstæðara rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki, til að mynda með því að lækka skatta á atvinnulífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert