Gúrkutíð í verslunum landsins

„Það er alveg ljóst að neytendur hafa orðið varir við …
„Það er alveg ljóst að neytendur hafa orðið varir við það í verslunum að það er búinn að vera skortur, það hefur vantað í hillur stundum gúrkur og sérstaklega tómata.“ Þorkell Þorkelsson

Það vantar um 1.000 tonn af íslensku grænmeti inn á íslenskan markað á ársgrundvelli og helmingi meira ef útiræktað grænmeti er tekið með. Framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna segir að landsmenn séu eflaust farnir að verða varir við viðvarandi skort á íslenskum gúrkum og tómötum í verslunum.

„Það er alveg ljóst að neytendur hafa orðið varir við það í verslunum að það er búinn að vera skortur, það hefur vantað í hillur stundum gúrkur og sérstaklega tómata. Framleiðslan hefur ekki verið næg og núna þarf bara að stíga einhver skref og auka hana hressilega,“ segir Gunnlaugur Karlsson í samtali við mbl.is.

Hann segir eftirspurn eftir íslensku grænmeti hafa aukist en að framleiðslan hafi ekki aukist í takt við hana. Dýrt sé orðið að rækta grænmeti og þar spili rafmagnsverð stærstan hluta, auk þess sem garðyrkja hérlendis sé lítið styrkt miðað við það sem gerist víða annars staðar. 

Flutningskostnaður rafmagns raunverulega enginn

„Það eru þrjár tegundir grænmetis aðeins styrktar og svo er það þetta sem kallast niðurgreiðsla á flutningskostnaði, sem ég kalla nú ekki styrk heldur bara einhverja leiðréttingu sem er ekki nærri nóg,“ segir Gunnlaugur og bætir því við að hugtakið flutningskostnaður á rafmagni sé í raun mjög vitlaus. „Þú borgar stofngjald fyrir streng og spennustöð og svo borgarðu afnotagjöld af streng og spennustöð, en flutningskostnaðurinn af því að flytja rafmagn er raunverulega enginn.“

Gunnlaugur segir eftirspurn eftir íslensku grænmeti hafa aukist en að …
Gunnlaugur segir eftirspurn eftir íslensku grænmeti hafa aukist en að framleiðslan hafi ekki aukist í takt við hana. mbl.is/​Hari

Gunnlaugur segir mikilvægt að garðyrkjubændur fari að ná takti við stjórnvöld, sem séu öll af vilja gerð, og að sú vinna sé í gangi. „Við viljum ná að leiðrétta þessa stöðu og sú vinna er í gangi en það þarf að finna fjármagn.“

Grænmetisneysla eigi bara eftir að aukast

Þó séu ágætislíkur á að nokkrar garðyrkjustöðvar fari að auka framleiðslu sína strax á þessu ári og að með hækkandi sól ætti gúrku- og tómataskorturinn að leysast, en að til þess að greinin fái þá innspýtingu sem þarf þurfi frekari aðkomu stjórnvalda.

„Við þurfum í heildina að sjá svona 1.500 tonnum meira af grænmeti á þennan markað ef við teljum útiræktunina með. Það er töuvert mikið magn, fjögur til fimm kóló á mannsbarn sem við þurfum að bæta við framleiðsluna og grænmetisneysla er bara að fara að aukast þannig við þurfum að standa okkur betur í því að koma því til vegar að menn stækki þessa grein. Við þurfum aðstoð, við þurfum fjármagn og við þurfum eðlilegt rafmagnsverð. Við erum ekki að biðja um neina ölmusu heldur bara að menn stilli í hóf arðsemiskröfum sínum af þessum viðskiptum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert