Öll gistipláss orðin full í Vík

Leitað er að gistiplássum fyrir strandaglópa í Vík í Mýrdal.
Leitað er að gistiplássum fyrir strandaglópa í Vík í Mýrdal. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Hótelin eru orðin full og það er verið að reyna að finna einhverjar kompur til að koma fólki fyrir,“ segir Elías Guðmundsson, eigandi Hótel Kríu og Hótel Víkur, en bæði hótelin eru staðsett í Vík í Mýrdal og þar eru hátt í 400 gistipláss. Hann er líka með tuttugu íbúðir til útleigu í bænum og þær eru allar orðnar fullar.

Mikill fjöldi ferðamanna eru strandaglópar í Vík í Mýrdal vegna veðurs og lokana á vegum og er nú leitað logandi ljósi að gistiplássum fyrir fólkið ef ekki verður hægt að opna þjóðveginn fyrir nóttina.

„Ég er búinn að vera í sambandi við eitt rútufyrirtæki sem er búið að vera stopp í allan dag. Við ætlum alla vega að byrja á því að gefa þeim að borða. Dreifa því á veitingastaðina sem ég er með þarna. Ég vona nú að það opni fyrir miðnætti þannig það losni um svo þetta verði ekki algjört kaos. Það er svolítið erfitt að koma heilli rútu fyrir núna. Það gengi illa.“

Elías rekur þrjá veitingastaði í Vík; Víkurskála, Ice Cave Bistro og Lave Cafe sem staðsett er í húsnæði Icewear, en eru sæti fyrir 180 manns. „Icewear er svo stórt. Við slökum yfirleitt til þar og höfum opið lengur. Við hendum fólki aldrei út. Menn hafa alla vega pláss til að vera inni og það þarf enginn að vera úti í bíl.“

Elías segir að vel bókað hafi verið fyrir, áður en veðrið skall á, svo ekki hafi verið mikið svigrúm til að taka við fleira fólki. Hann er vanur því að mikið sé að gera á þessum árstíma. „Veturnir eru yfirleitt mjög góðir og febrúar og mars eru vel nýttir. Það er engin breyting á því svo það er ekki mikill slaki. En þetta er búinn að vera leiðinlegur vetur. Með þeim verri sem maður hefur lent í. Mikið meira af lokunum og verri veður, fólk að teppast og alla vega.“

Hann bendir á að umferðin á þessu svæði núna sé eins og um hásumar fyrir nokkrum árum. Það megi því lítið út af bregða til að einhver vandræði skapist.

Elías Guðmundsson, hótelstjóri í Vík í Mýrdal.
Elías Guðmundsson, hótelstjóri í Vík í Mýrdal. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert