Strandaglópar úti um allt í Öræfum

Björgunarsveitir hafa sinnt ýmsum verkefnum á Suður- og Suðausturlandi.
Björgunarsveitir hafa sinnt ýmsum verkefnum á Suður- og Suðausturlandi. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Björgunarsveitir á Suður- og Suðausturlandi hafa sinnt fjölda verkefna á svæðinu í dag og í kvöld vegna vonskuveðurs sem þar geisar. Fyrstu útköllin komu upp úr hádegi vegna lokana á vegum. Þá hafa ökumenn sem fest hafa bíla verið aðstoðaðir.

Aðallega hafa borist tilkynningar um bíla í vanda í kringum Vík í Mýrdal og í Öræfunum, þar sem voru strandaglópar út um allt, eins og vegfarandi orðaði það við björgunarsveitir. Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

„Það er búið að aðstoða marga ökumenn á þessu svæði. Það hafa verið mjög sterkar hviður, bílar sem hafa verið að fjúka til veginum, en engar tilkynningar um slys á fólki,“ segir Davíð, en björgunarsveitir voru einnig kallaðir til vegna rútu sem fór út af veginum í dag, þar sem þurfti að flytja 18 farþega af slysstað. Engan sakaði þó.

Appelsínugul viðvörun var í gildi til klukkan tíu í kvöld á öllu Suður- og Suðausturlandi og gul viðvörun tók við í kjölfarið. Veður hefur því verið mjög vont og vegir lokaðir. Davíð segir að það virðist vera mikið af fólki á því svæði þar sem veðrið hefur verið verst, en þar sé alltaf mikil umferð af ferðamönnum. Verkefni björgunarsveitanna í dag hafi verið í takt við það.

„Ég held að þetta sé eðlilegt umfang verkefna miðað við hvað fer mikið af fólki þarna um svæðið. Það er ekkert alltaf hægt að tryggja að það náist til allra. Þetta hefur verið allt mjög viðráðanlegt,“ segir Davíð.

Mikill fjöldi ferðamanna varð strandaglópur vegna veðursins í Vík í Mýrdal þar sem öll gistipláss eru orðin full og leitað logandi ljósi að gistingu fyrir þá sem enn hírast í rútum eða komið sér fyrir inni á veitingastöðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert