Byrjaðir í fjarnámi vegna verkfallsins

Réttarholtsskóli.
Réttarholtsskóli. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er alltaf erfitt að þurfa að grípa til svona aðgerða. Þessir skólar eru að halda úti þeirri þjónustu sem þeir geta mögulega haldið úti, þá miðað við þær aðstæður að það sé aðeins hluti skólabarna í skólanum á hverjum tíma. Í Réttarholtsskóla er þriðjungur nemenda í skólanum en hinir eru í fjarnámi.“

Þetta segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, spurður um hvernig hafi gengið að vinna með svokallað veltukerfi í nokkrum grunnskólum borgarinnar. Á mánudag mun Vogaskóli bætast í hóp þeirra.

Þekktu fjarnámið fyrir

Hann bendir á þegar skólahald fellur niður sé auðveldara að vinna með fjarnámsfyrirkomulag fyrir nemendur í Réttarholtsskóla, sem er safnskóli á unglingastigi, heldur en t.d. í Grandaskóla, sem er með 1. - 7. bekk. „Í Grandaskóla eru náttúrulega yngri börn, og þau eiga erfiðara með að vera ein. Foreldrar þurfa þá að vera með önnur úrræði, alla vega á morgnana fyrir þau yngstu, en frístundaheimili starfar með alveg óbreyttu sniði seinni part dagsins.“

Yngstu börnin geta vitaskuld síður verið ein heima. Frístundaheimili starfa …
Yngstu börnin geta vitaskuld síður verið ein heima. Frístundaheimili starfa þó með óbreyttu sniði. mbl.is/Hari

Spurður um umrætt fjarnámsúrræði segir Helgi að krakkarnir í Réttarholtsskóla séu að einhverju leyti vanir að fá verkefni í gegnum námsforritið Google classroom. „Það er í raun bara verið að auka þá áherslu.“ Nefnir Helgi að áttundi og níundi bekkur hafi komið í skólann í gær, þar sem kynnt var fyrir þeim hvernig fyrirkomulagið yrði, og lögð áhersla á að krakkarnir væru enn við nám.  

„Það styttist í samræmd próf hjá níunda bekk og tíundi bekkur útskrifast í vor. Það skiptir því auðvitað miklu máli að þau haldi eins miklum dampi í náminu og nokkur kostur er.“

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Ellefu í Reykjavík

Spurður hvort búist sé við að fleiri skólar muni þurfa að grípa til viðlíka aðgerða segir Helgi að í Reykjavík séu alls ellefu skólar þar sem starfsmenn Eflingar sjá að einhverju leyti um ræstingu. „Allt frá því að vera 0,35% stöðugildi og upp í sex heil stöðugildi, sem er í Réttarholtsskóla. Það eru einmitt þessir skólar þar sem stöðugildi starfsmanna Eflingar eru tvö eða fleiri þar sem vandinn er mestur. Starfsmaður í fullu starfi ræstir töluvert margar skólastofur.“ 

Áhrifa verkfalls Eflingar gætir víða um borg.
Áhrifa verkfalls Eflingar gætir víða um borg. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert