Um 400 útskrifaðir háskólagengnir

Frá athöfninni í Háskólabíói í dag.
Frá athöfninni í Háskólabíói í dag. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Allt starf Háskóla Íslands hefur frá fyrstu tíð miðað að því að efla farsæld og velferð á Íslandi. Það var því enn ein dýrmæt staðfesting á árangri okkar þegar nýlega varð opinbert að Háskóli Íslands er í hópi allra fremstu háskóla heims þegar kemur að áhrifum á samfélag og nærumhverfi.“ Þetta er á meðal þess sem dr. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sagði í ræðu sinni við brautskráningu nemenda við hátíðlega athöfn í Háskólabíói í dag.

Hartnær 400 kandídatar úr grunn- og framhaldsnámi voru útskrifaðir, þar af 250 konur og 148 karlar. 

Jón Atli í ræðustól fyrr í dag.
Jón Atli í ræðustól fyrr í dag. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Háskólastarf landnám

Jón Atli sagði enn fremur að háskólastarf væri í eðli sínu landnám, óþrjótandi leit að dýpri skilningi, traustari þekkingu, betri lausnum og fegurra mannlífi. „Það er eitthvað í innsta kjarna háskólahugsjónarinnar, og raunar í lífinu sjálfu, sem unir illa kyrrstöðunni. Landneminn Stephan G. Stephansson orðaði þetta svo í ávarpi til samlanda sinna í Vesturheimi um líkt leyti og Háskóli Íslands var stofnaður: Það er engra þakka vert að búa í Róm, heldur að byggja hana upp.“

Að lokinni brautskráningu flutti Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, ávarp og Háskólakórinn söng nokkur lög.

Yfir 13.000 við nám

Nú stunda um 13.300 nemendur nám við Háskóla Íslands, af þeim eru um 8.200 í grunnnámi og um 5.100 í framhaldsnámi, þar af um 640 í doktorsnámi, og um 1.200 í viðbótarnámi á meistarastigi. Frá síðustu febrúarbrautskráningu hafa brautskrást 2.269 kandídatar í grunn- og framhaldsnámi og á sama tímabili hafa 80 lokið doktorsprófi frá Háskólanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert