Greiðfært á höfuðborgarsvæðinu

Unnið er að hreinsun gatna og stíga í Reykjavík en …
Unnið er að hreinsun gatna og stíga í Reykjavík en greiðfært er á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Greiðfært er á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að spár hefðu bent til þess að þar gæti snjóað mikið í nótt. Að sögn Daníels Þorlákssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, fóru tveir éljabakkar hvor sínu megin við höfuðborgarsvæðið í nótt, annar suðaustur og hinn norður af, þannig að höfuðborgarsvæðið slapp mun betur en talið var. Áfram mun snjóa á Suðvesturlandi í dag en í kvöld fer að frysta. 

Þröstur Víðisson, verkstjóri á framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar, segir að greiðfært sé á götum höfuðborgarinnar en unnið hefur verið að snjóhreinsun frá því um miðja nótt. Hann segir að í dag verði unnið að því að hreinsa sem best snjó af götum og stígum því von er á talsverðu frosti í kvöld. Þrátt fyrir ágæta færð er vert að minna á að það er vetrarfærð og nauðsynlegt að hreinsa snjó af rúðum bifreiða og ljósum áður en lagt er af stað út í morgunumferðina. 

Éljagangur er á Hellisheiði.
Éljagangur er á Hellisheiði. mbl.is/RAX

„Það hefur gengið á með éljum um landið sunnan- og vestanvert í nótt en það safnaðist ekki mikið af snjó á höfuðborgarsvæðinu. Éljagangurinn heldur áfram fram eftir degi, en skýjað af háskýjum og þurrt norðaustan til á landinu.


Í nótt og á morgun kólnar heldur og gengur í hvassa norðaustanátt með snjókomu, fyrst á Vestfjörðum og með norðurströndinni, en hægari vindur syðst á landinu fram á kvöld og um sunnanvert landið rofar einnig heldur til,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Suðlæg átt er ríkjandi á landinu, 5-13 metrar á sekúndu, og lægir í kvöld. Gengur á með éljum en lengst af bjartviðri norðaustan til. Gengur í norðaustan 13-18 m/s á morgun en hægari syðst á landinu fram á kvöld. Snjókoma með köflum, en léttir til um sunnanvert landið. Frost 0 til 8 stig, kaldast inn til landsins, en frostlaust við suðurströndina í dag.

Á þriðjudag:

Norðaustan 13-18 m/s og snjókoma á Vestfjörðum og með norðurströndinni, annars hæg norðlæg eða breytileg átt, skýjað að mestu og þurrt. Frost 1 til 8 stig, kaldast inn til landsins.

Á miðvikudag:
Norðan- og norðaustan 8-15 m/s átt og dálítil él, en úrkomulítið um sunnanvert landið. Herðir á frosti.

Á fimmtudag:
Stíf austlæg átt og él eða snjókoma í flestum landshlutum. Frost um land allt.

Á föstudag:
Austlæg eða breytileg átt og snjókoma austan til á landinu, annars þurrt. Vægt frost en frostlaust syðst á landinu.

Á laugardag:
Suðlæg átt og dálítil snjókoma eða él, en þurrt norðvestan til. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:
Útlit fyrir sunnan- og suðvestanátt með éljum, en að mestu þurrt norðanlands. Hiti nálægt frostmarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert