Hækkun á gjaldskrá Sorpu möguleg

Til greina kemur að hækka gjaldskrá Sorpu til að rétta …
Til greina kemur að hækka gjaldskrá Sorpu til að rétta reksturinn af en ákvörðun þess efnis mun liggja fyrir í vor. mbl.is/Styrmir Kári

Sveitarfélögin sex sem eiga Sorpu bs. þurfa að ábyrgjast sex hundruð milljóna króna lán til að rétta af rekstur byggðasamlagsins. Til greina kemur að hækka gjaldskrá til að rétta reksturinn af. Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi Sorpu í morgun með kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna sem eiga Sorpu. 

Stjórn Sorpu fór yfir erfiða fjárhagsstöðu byggðasamlagsins á fundinum og kynnti fyrirhugaðar aðgerðir til að bregðast við henni. Stjórnin mun fara þess á leit við sveitarfélögin sem að fyrirtækinu standa að þau ábyrgist 600 milljóna króna lánalínu sem sótt verður til viðskiptabanka félagsins. Sveitarfélögin munu ekki þurfa að leggja til fjármuni en munu þess í stað ábyrgjast lán félagsins. 

„Við þurfum að fá heimild eigenda okkar og þetta mætti góðum skilningi og ég fann ekki annað en að tillagan njóti trausts og ég vænti þess að hún verði samþykkt,“ segir Helgi Þór Ingason, framkvæmdastjóri Sorpu, í samtali við mbl.is. 

Í síðustu viku sagði Har­ald­ur Sverris­son, bæj­ar­stjóri Mos­fells­bæj­ar, á opn­um bæj­ar­stjórn­ar­fundi að ef ekk­ert yrði að gert færi Sorpa í greiðsluþrot upp úr miðjum mars. Í kjölfarið sendi Sorpa frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að gjald­færni fyr­ir­tæk­is­ins væri alltaf tryggð þar sem um byggðarsamlag er að ræða og sveitarfélögin bera ábyrgð á rekstrinum, þó að til þess geti komið að sveit­ar­fé­lög­in þurfi að leggja fram frek­ari fjár­muni til rekst­urs­ins.

Skýrist í vor hvort verður af gjaldskrárhækkunum

Helgi Þór, sem tók nýlega við starfi framkvæmdastjóra eftir að Birni H. Hall­dórs­syni var sagt upp störfum eftir að athugun innri endurskoðunar borgarinnar leiddi í ljós að kostnaður við gerð nýrrar gas- og jarðgerðarstöðvar hafi verið stólega vanáætlaður, segir að annars vegar sé um bráðaðgerð að ræða og hins vegar langtímavinnu. 

„Bráðaaðgerðin snýst um að útvíkka lánalínu til að mæta sjóðstreymisvanda á næstu viku en það sem skiptir kannski meira máli er að við erum að gangsetja massífa vinnu í hagræðingu og úttekt í fjármálum frá öllum sjónarhornum,“ segir Helgi Þór. Áætlanir þar að lútandi skulu liggja fyrir í júní næstkomandi.  

Aðspurður hvort hækkun á gjaldskrám verði hluti af aðgerðunum segir Helgi Þór það ekki ólíklegt, en það kæmi þá fram í áætluninni sem kynnt verður í vor. „Ég þori ekki að segja til um það. En það má vænta þess að einhver áhrif verði á gjaldskrá, mér finnst það ekki ólíklegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert