Lögreglumaður dæmdur fyrir líkamsárás í starfi

mbl.is/Eggert

Lögreglumaður hefur verið dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi við handtöku á karlmanni fyrir framan Irishman Pub á Klapparstíg í mars í fyrra.

Samkvæmt dómi málsins var maðurinn á leið út af skemmtistaðnum þegar dyravörður bannaði honum að fara með glas út af staðnum. Var dyravörðurinn á tali við tvo lögregluþjóna, en maðurinn kom og truflaði þá og var dónalegur við lögreglumanninn auk þess að hafa að engu beiðni um að fara ekki út með glasið. Þá sést í myndavélabúnaði lögreglubifreiðar að maðurinn hafi hallað sér ögrandi fast að andliti lögreglumannsins og sagt eitthvað. Lögreglumaðurinn hrifsaði í framhaldinu glasið af manninum og ýtti honum út á stétt fyrir framan skemmtistaðinn og var hann þar handtekinn og farið með hann í lögreglubifreiðina.

Upptaka er einnig af samskiptum lögreglumannanna og mannsins í bifreiðinni, en þar sést meðal annars að hann hafi verið leiddur handjárnaður fyrir aftan bak að bílnum. Skipar lögreglumaðurinn svo manninum að leggjast á magann inn í bíl og slær hann eða leggur höndina leiftursnöggt aftan á höfuð mannsins og reigir það fram. Er maðurinn því næst dreginn inn á gólf lögreglubifreiðarinnar á maganum.

Lögreglumaðurinn fylgdi honum á eftir, kraup við hlið hans og setti hné í höfuð mannsins. Spurði lögreglumaðurinn hann því næst hvort hann ætli að lemja lögreglumann og segir manninum að „grjóthalda kjafti“. Svarar maðurinn því til að hann hafi aldrei lamið nokkurn mann eða hótað lögreglumanni. Slær hann manninn næst tvívegis laust í andlitið með handarbaki kreppts hnefa og lyftir svo hné sínu af höfði mannsins.

Í dóminum segir að þótt ekki sé augljóst hvort hann þrýsti hnénu aftur á höfuð og háls mannsins, en maðurinn hljóðar þó augnablik og segist alveg vera að deyja. Sagði hann fyrir dómi að hann hefði þarna verið við það að kafna.

Lögreglumaðurinn lyftir því næst handlegg mannsins upp, þar sem hann er í handjárnum, en við það hljóðar hann af sársauka.

Í dóminum er tekið fram að lögreglu beri að gæta hófs í meðferð valds síns og ganga ekki lengra en nauðsyn krefji hverju sinni til að ná því markmiði sem stefnt er að.

Lögreglumaðurinn neitaði að hafa slegið manninn aftan í höfuðið, en sagðist hafa lagt lófa sinn hratt á höfuð hans og rykkt höfðinu fram svo hægt væri að koma honum í bílinn. Hann neitaði einnig að hafa slegið tvívegis í andlit hans, en dómurinn segir myndbandsupptöku glögglega sýna að framburður hans samrýmist því ekki.

„Þótt höggin sýnist ekki föst fær dómurinn ekki séð að nokkurt tilefni hafi verið til þeirra þar sem brotaþoli var ófær um að veita móspyrnu, liggjandi á maganum í handjárnum fyrir aftan bak,“ segir í dóminum. „Hinu sama gegnir um þá háttsemi ákærða að setja hné sitt á höfuð brotaþola, þótt í skamma stund sé, svo og að þvinga handlegg hans í sársaukastöðu fyrir aftan bak á gólfi lögreglubifreiðarinnar í því einu skyni að brotaþoli gæfi upp nafn sitt. Má heyra af upptökunni að sú aðferð hafi valdið brotaþola verulegum þjáningum.“

Bætir dómurinn við að með engu móti sé unnt að fallast á að slíkar aðfarir teljist viðurkenndar valdbeitingaraðferðir lögreglu. „Aðfarir ákærða voru án tilefnis, brotaþoli var varnarlaus og handjárnaður fyrir aftan bak og verður ekki séð af áðurnefndu myndbandi að hann hafi reynt að veita mótspyrnu.“

Maðurinn fór fram á 2,7 milljónir í bætur, en dómurinn segir að ekki hafi verið færðar nægar sönnur á að einkenni mannsins sem hann lýsti við skoðun hjá lækni og segist enn búa við verði rakin til handtökunnar og ólögmætu valdbeitingarinnar. Er kröfunni því vísað frá.

Lögreglumaðurinn þarf að greiða 1,6 milljónir í málskostnað og málsvarnarlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert