Rúta með 23 um borð valt nærri Þingvöllum

Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. mbl.is/Sigurður Bogi

Rúta með 23 um borð fór út af Þingvallavegi, vestan Þingvallavatns, á ellefta tímanum í dag. Farþegarnir voru erlendir ferðamenn. Sjúkraflutningamenn komu á staðinn laust fyrir kl. 11, en samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu er talið að meiðsli fólks séu minniháttar, ekki hafi verið um alvarlegt slys að ræða.

Hið sama segir lögreglan á Suðurlandi í tilkynningu sem birt hefur verið á Facebook. Þar segir að farþegarnir séu allir uppistandandi eftir slysið, sem átti sér stað á Þingvallavegi, um 500 metrum vestan við afleggjarann að Efri-Grafningsvegi sem liggur niður með Þingvallavatni vestanverðu.

Slysið átti sér stað um 500 metra vestan við afleggjarann …
Slysið átti sér stað um 500 metra vestan við afleggjarann að Efri-Grafningsvegi. Kort/Map.is

Þeir farþegar sem ekki verða fluttir með sjúkrabíl til skoðunar verða fluttir í skjól í Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum, en ferðaþjónustufyrirtækið sem var með þá á sínum vegum ætlar að senda annan bíl á eftir hópnum.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert