Starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar undrandi

Sigríður Ingvarsdóttir forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Sigríður Ingvarsdóttir forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Það mátti greina undrun hjá mörgum starfsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er þeim var tilkynnt á starfsmannafundi í morgun að til stæði að leggja stofnunina sem slíka niður um næstu áramót.

Þetta segir forstjóri stofnunarinnar, Sigríður Ingvarsdóttir, í samtali við mbl.is um fyrirhugaðar breytingar sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra nýsköpunarmála hefur boðað og kynnt var starfsmönnum í dag.

Um er að ræða nokkra stefnubreytingu í nýsköpunarmálum hérlendis, sem ráðherra segir að sé tímabær sökum þess að nýsköpunarumhverfið á Íslandi sé orðið þroskaðra en áður, fjölmargir aðilar hafi bæst við flóru þeirra sem styðji við nýsköpun og frumkvöðla aðrir en hið opinbera.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra nýsköpunarmála tók ákvörðun um að …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra nýsköpunarmála tók ákvörðun um að stefna að lokun NMÍ næstu áramót. mbl.is/Eggert

„Ég hef vitað þetta aðeins lengur en starfsfólkið,“ segir Sigríður og bætir við að ljóst hafi verið frá því að nýsköpunarstefna fyrir Ísland var samþykkt í fyrra að stuðningsumhverfi við nýsköpun á Íslandi, og þar með starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem stofnunar, yrði endurskoðað.

„Starfsfólkið spurði um margt og það mátti greina undrun hjá mörgum. Það vakna að sjálfsögðu fjölmargar spurningar og það er eðlilegt þegar svona veigamiklar breytingar eru tilkynntar,“ segir Sigríður um starfsmannafundinn.

Mikilvægt að ljúka verkefnum sem eru í gangi

Hún segir að það brenni á starfsfólki Nýsköpunarmiðstöðvarinnar að þau verkefni sem eru í gangi fái að halda áfram og og unnt verði að ljúka þeim á eðlilegan hátt.

„Mörgum góðum verkefnum þarf að finna farveg, því við höfum auðvitað verið að vinna i nánu samstarfi við íslenskt atvinnulíf. Við höfum annars vegar verið að sinna frumkvöðlum og fyrirtækjum og rekum sex frumkvöðlasetur með um 70 fyrirtækjum og svo höfum við verið að sinna rannsóknar- og þróunarstarfi sem eru oft lífsnauðsynleg verkefni fyrir tæknisprota eða fyrirtæki í mikilvægum nýsköpunarverkefnum. Við sem erum nú alltaf að tala um nýsköpun alla daga, við hljótum bara að taka því sem hverju öðru verkefni þegar breytt er um stefnu varðandi okkar stofnun,“ segir Sigríður.

„Stórt púsluspil“ framundan

Forstjórinn segir að miðstöðin sé með um fimmtíu virka samninga í gangi og hafi verið að sækja mikið af rannsóknafé til erlendra sjóða í samstarfi við bæði íslensk fyrirtæki, stofnanir og háskóla.

„Þetta eru allt verkefni sem þurfa að halda áfram,“ segir Sigríður og verkefnið framundan er eins og „stórt púsluspil“ að hennar sögn.

„Nú þarf maður bara að fara að skoða hvert og eitt verkefni, hvar því er best komið og í samstarfi við hverja,“ en einhver verkefni munu færast til einkaaðila, önnur fara í hendur háskólasamfélagsins og enn önnur til annarra stofnana.

„Það er bara heilmikil undirbúningsvinna framundan. Öllum breytingum fylgja áskoranir og öllum áskorunum fylgja tækifæri,“ segir Sigríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert