Ekkert „gamblað“ vegna veirunnar

Rögnvaldur Ólafsson, lög­reglu­full­trúi hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, á blaðamannafundi síðdegis.
Rögnvaldur Ólafsson, lög­reglu­full­trúi hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, á blaðamannafundi síðdegis. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Allar ákvarðanir sem við tökum eru vel ígrundaðar,“ segir Rögn­vald­ur Ólafs­son, lög­reglu­full­trúi hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, við mbl.is. Hann vísar því á bug að viðbrögð sóttvarnalæknis og almannavarna við útbreiðslu kórónuveirunnar COVID-19 hafi verið máttleysisleg.

Ýmsir hafa áhyggjur af veirunni en við fregnir af fjórum smitum á hóteli þar sem Íslendingar dvelja á Tenerife virðist veiran færast nær Íslandi. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur til að mynda ítrekað sakað sóttvarnalækni um sofandahátt og kæruleysi.

Rögnvaldur segist í sínum verkefnum oft hafa orðið vitni að fólki sem hafi áhyggjur og sé hrætt. „Það er ekkert skrítið að fólki finnist of lítið gert og fari að velta fyrir sér hvað ætti að gera og kasti fram hugmyndum,“ segir Rögnvaldur og heldur áfram:

„Við berum ábyrgð og þurfum að hugsa allt sem við gerum til enda. Allar ákvarðanir okkar byggja á staðreyndum. Það sem við höfum fram yfir Jón Jónsson úti í bæ sem situr við tölvuna sína og er að tjá sig á Facebook er að við höfum aðgang að öllum helstu sérfræðingum og vitum hvað er satt og rétt hverju sinni. Allar okkar ákvarðanir byggja á því.“

Rögnvaldur tekur dæmi af fólki sem krafðist þess að landinu yrði lokað til að koma í veg fyrir að veiran bærist hingað. 

„Það er meira en að segja það. Ef þú lokar landinu þá ertu að loka því fyrir öllu, þá færðu ekkert inn og ekkert fer út heldur,“ segir Rögnvaldur og bendir á að það myndi hafa áhrif á matvæli, lyf og fleiri nauðsynjar.

„Þetta er bara eitt dæmi og allt svona þarf að hugsa til enda og allar ákvarðanir sem við tökum hafa afleiðingar. Við þurfum að hugsa vel og vandlega hvað þarf að gera.“

Rögnvaldur bendir á að sóttvarnalæknir og þeir sem starfi hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra búi á Íslandi og eigi fjölskyldur, börn, vini og vinnufélaga.

„Það er eins og sumir haldi að við búum ekki hér á landi. Við erum ekkert að „gambla“ neitt eða taka óþarfa áhættu. Við hugsum um hag okkar allra og á sama tíma má segja að við séum að hugsa um sjálfa okkur.“

Rögnvaldur segir stjórnendur áfram búa sig undir það versta og séu ekki það barnalegir að halda að veiran komi ekki hingað. Undirbúningur snúi að því að afleiðingar veirunnar yrðu sem minnstar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert