Myntin endaði hjá Samhjálp

Valdimar Svavarsson, framkvæmdastjóri Samhjálpar.
Valdimar Svavarsson, framkvæmdastjóri Samhjálpar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valdimar Þór Svavarsson, framkvæmdastjóri Samhjálpar, þakkar Wei Li kærlega fyrir stuðninginn og segir að það sé sama hvort hann komi frá Íslandi eða Kína. Kínverskur maður, Wei Li, sem kom hingað til lands með mikið magn íslenskrar myntar sem hann ætlaði að skipta en fékk ekki afgreiðslu í bönkum, gaf Samhjálp myntina.

Fréttablaðið greinir frá því að Arion banki hyggist láta rann­saka nánar myntina en ganga á úr skugga um hvort myntin, eða hluti hennar, kunni að vera fölsuð.

Valdimar rekur í aðsendri grein í Morgunblaðinu hvernig myntin endaði hjá Samhjálp en áður hafði Fréttablaðið greint frá gjöf Wei og eins hafði Valdimar sagt söguna í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

„Það ráku margir upp stór augu þegar það fréttist að hingað til lands væri kominn maður frá Kína með tugi kílóa af íslenskri mynt sem var að miklu leyti illa farin, beygluð og skemmd. Fréttin varð stöðugt áhugaverðari þegar í ljós kom að hinn geðþekki Kínverji, Wei Li, fengi myntinni ekki skipt. Það er vel skiljanlegt enda ýmsar reglur sem halda utan um flæði peninga í heiminum og undarlegt í meira lagi að maður kæmi alla leið frá Kína með svo mikið magn af íslenskri mynt sem væri stórskemmd í þokkabót.

Þegar símtal barst á skrifstofu Samhjálpar frá enskumælandi manni með kínverskan hreim varð sú sem tók við símtalinu að hafa sig alla við til þess að skilja hvað það væri sem maðurinn vildi koma á framfæri. Hann talaði um að hann væri með íslenska mynt sem væri skemmd og hann vildi gefa hana til Samhjálpar. Sú sem við símtalinu tók hafði alfarið misst af umfjöllun um málið í fjölmiðlum og vissi því ekki af hrakförum Wei Li né hve mikið magn hann væri hugsanlega með í sínum fórum. Henni skildist á manninum að hann væri staddur í bíl nálægt miðbæ Reykjavíkur og bauð honum því að koma einfaldlega við á Kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni og athuga hvort hann gæti sett myntina í safnbauk sem þar væri. Svar mannsins var að það væri ekki hægt, hann þyrfti að koma á skrifstofuna. Nú fóru að renna tvær grímur á móttakanda símtalsins, sem var farið að gruna að verið væri að gera símaat. Engu að síður bauð hún manninum góðfúslega að koma við á skrifstofu Samhjálpar og sagði honum hvar hún væri til húsa. Einhverju síðar mætir maður í afgreiðsluna, Kínverjinn sem hafði hringt fyrr um daginn og sagðist vera kominn með peningana. Það var sama manneskjan sem tók á móti honum og hafði talað við hann áður í síma og enn var hún svolítið hissa, enda ekki að sjá að maðurinn væri með neinn pening í sínum fórum. Nú fór hún að velta fyrir sér hvort þetta væri ekki bara símaat, heldur falin myndavél í ofanálag. Maðurinn sagðist þurfa að fá hana út á bílaplan til þess að sýna henni peninginn. Hún fylgdi honum út en var orðin nokkuð vör um sig. Ekki lagaðist það þegar hann sagðist hafa lagt bak við hús og þangað yrði hún að koma. Þegar þangað var komið opnaði maðurinn skott bílsins og viti menn – við blöstu við tugir kílóa af íslenskri mynt!

Starfsmanni Samhjálpar fannst þetta í meira lagi dularfullt, sagðist ekki viss um að hún gæti tekið við þessu og renndi grun í að þarna væri illa fengið fé. Hún fór því aftur inn á skrifstofu og ræddi málið við fjármálastjóra Samhjálpar sem þar var staddur. Hann þekkti betur til sögunnar og vissi um leið hvaða aðili væri þarna á ferð. Þetta væri umræddur Wei Li sem væri búinn að gefast upp á að skipta peningunum og vildi einfaldlega koma þeim í góðar hendur. Það er óhætt að segja að sagan öll og gjöfin sjálf hafi kætt okkur mjög hjá Samhjálp, saga sem er í senn fyndin og falleg. Wei Li var afar glaður að vita að fjármunirnir færu í gott málefni. Peningarnir koma í góðar þarfir enda viðvarandi þörf á frekari uppbyggingu á meðferðarheimilinu í Hlaðgerðarkoti og fjárstuðningi við Kaffistofu Samhjálpar þar sem fátækum og umkomulausum býðst heitur matur í hádeginu, alla daga allan ársins hring.

Samhjálp þakkar kærlega fyrir allan stuðning, hvort sem hann kemur frá Íslandi eða Kína,“ segir í aðsendri grein Valdimars í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert