Snýst ekki bara um krónutöluleiðréttingar

Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar.
Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru vonbrigði að við skyldum ekki hafa haldið samtalinu áfram,“ segir Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, en fundi í kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar var slitið á sjötta tímanum. Nýr fundur hefur ekki verið boðaður og ótímabundið verkfall Eflingarfélaga heldur áfram.

Harpa hefði viljað halda samtalinu áfram í dag og segir að Efling hafi slitið fundinum.

Harpa gaf lítið fyrir yfirlýsingar Eflingar að fundi loknum og segir að þau verði að fá að halda þeim fram. Hún tekur ekki undir málflutning Eflingar þar sem kom meðal annars fram að félagið hafi fengið sama tilboð og á fundi fyrir viku.

„Við höfum sérstaklega lýst yfir hækkun starfsmanna á leikskólum. Við höfum einnig eytt talsverðum tíma í aðra kvennahópa, vaktavinnuhópa í umönnun. Þar hefðum við séð verulegar leiðréttingar í gegnum styttingu í vinnuviku,“ segir Harpa.

Hún bendir á að starfsmaður í búsetuþjónustu myndi hækka um 33% á samningstímanum. Umræddur starfsmaður sé að stytta vinnutímann um allt að 20 tíma á mánuði.

„Þetta snýst ekki bara um einhverjar krónutöluleiðréttingar á hópa. Við erum að fara í gríðarlega kerfisbreytingu þegar við tölum um styttingu vinnuvikunnar,“ segir Harpa.

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samninganefnd borgarinnar lýsir furðu sinni á forystu Eflingar sem dragi í efa framkomin tilboð borgarinnar um verulegar kjarabætur fyrir starfsfólk Eflingar hjá borginni.

Leiðarljós borgarinnar í viðræðunum sé að hækka sérstaklega lægstu laun með sérstaka áherslu á laun kvennastétta, að því er fram kemur í tilkynningu.

Samninganefnd Reykjavíkurborgar ítrekar það tilboð um hækkun launa á leikskólum sem gert var opinbert í lok síðustu viku. Samkvæmt því verða meðaldagvinnulaun almennra starfsmanna í leikskólum 460.000 kr. á mánuði með álagsgreiðslum og hjá deildarstjórum innan Eflingar í leikskóla  verða mánaðarlaunin 572.000 kr. með álagsgreiðslum í lok samningstíma takist samningar á grundvelli tillagna Reykjavíkurborgar,“ kemur fram í tilkynningunni.

Sem dæmi um þær hækkanir sem öðrum stórum starfsstéttum hjá Eflingu standa til boða samkvæmt tillögum borgarinnar myndu meðaldagvinnulaun almenns starfsmanns í heimaþjónustu hækka úr 337.000 í 441.000 kr. Með álagsgreiðslum yrðu launin 496.000 kr. í lok samningstíma,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert