Sóttvarnalæknir skilgreinir áhættusvæði

Sóttvarnarlæknir ræður nú frá ónauðsynlegum ferðum til Suður-Kóreu og Írans, …
Sóttvarnarlæknir ræður nú frá ónauðsynlegum ferðum til Suður-Kóreu og Írans, auk Kína og fjögurra héraða á Norður-Ítalíu. AFP

Sóttvarnarlæknir ræður nú fólki frá ónauðsynlegum ferðum til Suður-Kóreu og Írans, auk Kína og fjögurra héraða á Norður-Ítalíu. Þá er hvatt til sérstakrar varúðar þegar ferðast er til annarra svæða á Ítalíu, Tenerife á Spáni, Japans, Singapúr og Hong Kong.

Þetta er meðal þess sem fram kem­ur í stöðuskýrslu al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra vegna kórónuveirunnar COVID-19.

Þar segir einnig að ráðleggingar ferðamanna varðandi veiruna hafi nú verið uppfærðar:

Skilgreind hafa verið tvö áhættusvæði, svæði þar sem miklar líkur eru taldar á samfélagssmiti og svæði með lága áhættu. Varað er við ónauðsynlegum ferðum til fyrrnefndu svæðanna en þeim koma frá svæðum þar sem áhættan er minni er bent á að gæta að almennu hreinlæti og hafa samband við Læknavaktina í síma 1700 ef sjúkdómseinkenni koma í ljós. Hafa ber í huga að staða mála í Evrópu með tilliti til COVID-19 breytist hratt og því gætu ráðleggingar sóttvarnalæknis breyst með stuttum fyrirvara,“ kemur fram í skýrslunni.

Áhættusvæðin eru svæði þar sem miklar líkur eru á samfélagssmiti. Svæðin eru Kína, fjögur héruð á N-Ítalíu (Lombardía, Venetó, Emilia Rómanja og Píemonte), Suður-Kórea og Íran. Ráðleggur sóttvarnalæknir gegn ónauðsynlegum ferðum til þessara svæða og mælist til að þeir sem hafa verið þar nýlega fari í fjórtán daga sóttkví og hafi samband við Læknavaktina í síma 1700 eða sína heilsugæslustöð.

Einnig eru þeir sem hafa dvalið á H10 Costa Adeje Palace hótelinu á Tenerife á Spáni frá 17.febrúar sl. beðnir um að halda sig heima í sóttkví í fjórtán daga frá því þeir yfirgáfu hótelið og vera í sambandi við 1700 eða sína heilsugæslustöð.

Svæði með lága áhættu eru þau svæði þar sem tilfellum hefur fjölgað undanfarið en minni líkur eru taldar á almennu smiti. Þessi svæði eru: önnur svæði á Ítalíu, Japan, Singapúr, Hong Kong og Tenerife (fyrir utan H10 Costa Adeje Palace hótelið). Ferðamenn sem eru nú þegar á þessum svæðum og þeir sem hafa nýlega komið þaðan eru beðnir um að huga vel að persónulegu hreinlæti og sýkingavörnum.

Þær fela meðal annars í sér að þvo hendur oft og vel, hafa klút fyrir andlitinu við hnerra og hósta í olnbogabót og nota handspritt. Ekki er talin nauðsyn á sérstakri sóttkví fyrir þá sem eru nýkomnir frá þessum svæðum. Almenningur getur með auðveldum hætti dregið úr sýkingarhættu með því að gæta vel að persónulega hreinlæti. Handþvottur og almennt hreinlæti í kringum augu, nef og munn og það að forðast að heilsa með handabandi hefur lykilþýðingu við að forðast smit og fækka smitleiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert