Einkennalausir geta smitað aðra af kórónuveiru

Kórónuveiran hefur ekki greinst hér á landi en heilbrigðisyfirvöld búast …
Kórónuveiran hefur ekki greinst hér á landi en heilbrigðisyfirvöld búast við því að hún muni berast hingað til lands. mbl.is/Eggert

Dæmi eru um að fólk sem sýkst hefur af kórónuveirunni hafi smitað aðra áður en einkenni veirunnar komu fram. Líkur á slíku smiti eru þó mjög takmarkaðar. Þetta segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, spurður um ummæli sóttvarnalæknis þess efnis að smitað fólk sem ekki sýndi einkenni kórónuveirunnar ætti ekki að vera smitandi. 

„Fólk sem er einkennalaust, en gæti verið smitað, við teljum að það fólk sé ekki smitandi, það ætti ekki að smita út frá sér með því að fara í flug eða í gegnum Keflavíkurflugvöll,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi í gær.

Þessi orð sóttvarnalæknis hljóma á skjön við það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið út og í nýjustu stöðuskýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra um veiruna segir einnig að „þó að veiran geti fundist hjá einkennalausum einstaklingi þá [sé] talið ólíklegt að þeir smiti aðra þó það geti gerst í stöku tilfellum.“

Afskaplega ólíklegt en ekki útilokað

„Það eru sannarlega til dæmi um það að fólk með afar væg einkenni sé smitandi. Þegar við tölum um það hve líklegur einhver sé til að smita einhvern annan þá er það í gegnum hósta, nefrennsli eða eitthvað slíkt, það sem fylgir því að vera með þessi einkenni. Ef einhver er með mjög væg einkenni eða jafnvel einkennalaus þá eru alveg afskaplega litlar líkur á því að viðkomandi smiti aðra, það eru þó dæmi um það, sannarlega,“ segir Kjartan.

„Sá „literatúr“ sem er til um það hvernig veirur smitast gefur til kynna að það sé alveg afskaplega ólíklegt að einkennalaus manneskja sé að smita mikið frá sér. Það er það sem Þórólfur átti við og hefði mögulega mátt vera aðeins skýrara í gær.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Rögnvaldur Ólafsson verkefnastjóri almannavarna á blaðamannafundinum …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Rögnvaldur Ólafsson verkefnastjóri almannavarna á blaðamannafundinum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ýmis grá svæði kórónuveiru

Kjartan ítrekar að þegar smitleiðir séu ekki til staðar séu mjög takmarkaðar líkur á að einstaklingur smiti aðra af veirunni.

„Vandamálið við þetta allt saman er að þetta er því miður aldrei svart eða hvítt, það eru ýmis grá svæði í þessu sem þarf að taka tillit til en eins og með þetta, þú getur verið smitaður af veirunni, þú getur verið að sýna lítil einkenni, jafnvel eins og þú sért ekki með einkenni en smitleiðirnar sem myndast við einkennin eru ekki til staðar og þar af leiðandi eru mjög litlar líkur á því að þú sért að smita aðra ef þú ert ekki með einkenni.“

Kórónuveiran er ólík inflúensu að því leytinu til að einkenni hennar eru væg til að byrja með og því gerir fólk sér ekki endilega grein fyrir því að það hafi sýkst af veirunni sem hefur nú dregið tæplega 3.000 til dauða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert