Hafnarfjarðarbær hefur tekið ákvörðun um að fresta árshátíð starfsmanna bæjarins vegna kórónuveirunnar, en hún átti að fara fram í kvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu á facebooksíðu Hafnarfjarðarbæjar.
Þar segir meðal annars að fulltrúar almannavarna hafi að höfðu samráði við sóttvarnalækni metið það svo að starfsfólk sem vinni með og sinni einstaklingum sem falla undir skilgreiningu á viðkvæmum hópum ætti að forðast að taka þátt í fjölmennum mannsöfnuðum. Það eigi einnig við um starfsfólk sem sinni lykilinnviðum og þjónustu sem þarf að vera órofin á öllum stigum almannavarnaástands, ekki síst neyðarstigi. Slíkt eigi við um marga starfsmenn sveitarfélaga, þar með talið miðlægrar stjórnsýslu og ráðhúss. Eftir fund með almannavörnum í morgunsárið, laugardaginn 7. mars, hafi verið tekin ákvörðun um að fresta árshátíð Hafnarfjarðarbæjar um óákveðinn tíma.
Ítrekað er að það sé gríðarlega stór ákvörðun að fresta stórum samkomum sveitarfélaga, líkt og árshátíð.
Slík ákvörðun þurfi að vera í takt við leiðbeiningar og ráðleggingar almannavarna og sóttvarnalæknis á hverri stundu fyrir sig og hafi bæjaryfirvöld í Hafnarfirði farið í einu og öllu eftir fyrirmælum þeirra eins og sveitarfélögum á svæðinu ber að gera. Þessi fyrirmæli hafi breyst í morgun. Óvenjulegar aðstæður væru í landinu og búið að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna, en sveitarfélagið hafi verið beðið að sýna biðlund með tilkynningar um að fresta samkomum og viðburðum.
Nú eru óvenjulegar aðstæður á landinu og neyðarstigi almannavarna var lýst yfir í gær og var sveitarfélagið beðið að sýna biðlund með tilkynningar um að fresta samkomum og viðburðum. „Sannarlega hefði hentað öllum betur að ákvörðun hefði verið tekin fyrr og eru íbúar og allir hlutaðeigandi beðnir að sýna ástandi og stöðu skilning,“ segir þar einnig.