Sóttvarnahúsið á Rauðarárstíg í Reykjavík var tekið í notkun í nótt. Er um að ræða erlenda ríkisborgara sem sýnt hafa einkenni flensu.
Að sögn Kjartans Hreins Njálssonar, aðstoðarmanns landlæknis, er um að ræða tvo einstaklinga. Annar er í sóttkví en hinn í einangrun. „Það er bara varúðarráðstöfun þar sem við erum að keyra sýni úr honum núna. Við þurfum að sjá til hvernig það þróast,“ segir Kjartan.
Sóttvarnahúsið er aðallega hugsað fyrir ferðamenn, erlenda ríkisborga og aðra sem ekki geta verið í einangrun á eigin heimili. Kjartan segir erfitt að segja til um mögulegan fjölda þeirra sem nýtt geta húsið.
„Þetta veltur bara á því hvernig málin þróast. Ástæðan fyrir því að við settum upp húsið var náttúrlega að við gerum ráð fyrir að það verði þörf fyrir það, þannig að við gerum algjörlega ráð fyrir því að fleiri nýti sér húsið.“
Þá segist Kjartan ekki geta sagt til um hver staða einstaklinganna tveggja sé, það er hvort þeir séu ferðamenn eða hafi aðra stöðu hér á landi.