Umbreytir starfsumhverfi sjúkraliða

Sjúkraliðar á baráttufundi fyrir nokkrum árum. Tímamótasamningur var gerður í …
Sjúkraliðar á baráttufundi fyrir nokkrum árum. Tímamótasamningur var gerður í morgun við ríkið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samningur Sjúkraliðafélags Íslands við ríkið markar tímamót hvað varðar vinnutíma vaktavinnufólks, að sögn Söndru B. Franks, formanns félagsins. 

„Sjúkraliðar eru vaktavinnustétt og þar af leiðandi er þetta góður samningur fyrir sjúkraliða. Þeir munu njóta góðs af þessum samningi,“ segir Sandra og bætir við að launahækkunin sé í samræmi við lífskjarasamninginn.

„Búið að keyra þessa stétt út“

Vinnuvika vaktavinnufólks styttist úr 40 tímum niður í 36, samkvæmt samningnum og fyrir vikið verður nýtt launamyndunarkerfi innleitt. Þessi tími styttist enn frekar eftir því hvernig vaktir viðkomandi er að vinna. Þeir sem eru á vöktum sem eru mest álagstengdar fá meiri afslátt af vinnuframlagi. Þar getur fólk náð vinnuvikunni niður í 32 stundir.

„Þetta mun umbreyta starfsumhverfi sjúkraliða til framtíðar. Það er búið að keyra þessa stétt út á allt of miklu vinnuálagi og vaktabyrði. Þarna erum við að koma til móts við það,“ segir Sandra. Félagsmenn í Sjúkraliðafélags Íslands eru rúmlega tvö þúsund.

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.

Hún segir að kjaraviðræðurnar við ríkið hafi verið „ógurlega langar“ en samningar losnuðu fyrir ellefu mánuðum. „Það er viss léttir að sjá að maður er búinn að ná markmiðunum næstum því í hús. Mér líður þannig að við höfum verið að skrifa undir góðan samning.“

Fagháskólanámi hrint í framkvæmd 

Sandra nefnir að annar áfangasigur hafi náðst með kjarasamningnum. Hann snýr að því að hrinda í framkvæmd fagháskólanámi fyrir sjúkraliða, sem hefur verið lengi á borðinu. Tilgangurinn með því er að efla viðbótarmenntun fyrir stéttina. Hún segir að verkefnið hafi staðið í menntamálaráðuneytinu og fyrir vikið hefur myndast uppsöfnuð þörf fyrir náminu. „Við gátum sem betur fer fundið leið til að hrinda því í framkvæmd. Það er ákveðinn persónulegur sigur fyrir félagið að hafa getað fengið það í gegn.“

Sjúkraliðafélag Íslands á eftir að semja við Reykjavíkurborg og verður næsti fundur á miðvikudaginn. Samningurinn við ríkið verður svo kynntur félagsmönnum á næstu dögum.

Samninganefndir Sjúkraliðafélags Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.
Samninganefndir Sjúkraliðafélags Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Ljósmynd/Embætti ríkissáttasemjara
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert