3.000 starfsmenn FAO í Róm sendir heim í gær

Stikað um stræti Rómaborgar í gær og allur er varinn …
Stikað um stræti Rómaborgar í gær og allur er varinn góður í samkomubanni sem nær til 60 milljóna manna. AFP

„Skrifstofan hér er orðin tóm og á næstunni eða þar til annað verður ákveðið sinnir starfsfólk hér verkefnum sínum að heiman enda flestir með tölvutengingar til slíks. Starfsemin og verkefnin hafa gjörbreyst á fáeinum dögum,“ segir Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra og ráðgjafi hjá FAO í Róm, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Árni var meðal framkvæmdastjóra stofnunarinnar til skamms tíma og hefur búið ytra með fjölskyldu sinni í um áratug. Stjórnvöld á Ítalíu hafa hert allar aðgerðir vegna kórónuveirunnar og tóku ákvarðanir þar um gildi í gær. Samkomubann, sem nær til 60 milljóna manna, nær til alls landsins og fólki er einungis heimilt að fara til og frá vinnu og sinna einkaerindum með sérstökum skilyrðum. Öllum mannamótum hefur verið aflýst og skólastarf hefst að nýju í fyrsta lagi 2. apríl.

Um 3.000 manns starfa hjá FAO í Róm og flest af því fólki hélt heim frá vinnu um hádegisbil í gær. „Núna gefst fólki tími til að sinna ýmsum þeim verkefnum sem hafa þurft að sitja á hakanum í starfinu. Það breytir líka talsverðu hjá okkur að nánast öll fundahöld og ferðalög hjá okkur hafa lagst af vegna kórónuveirunnar. Núna átti ég til dæmis að vera austur í Japan á ráðstefnu um málefni hafsins og margir fleiri sambærilegir fundir voru ráðgerðir á næstunni. Nú hefur þessu öllu verið frestað, en í þessu felst líka lærdómur um hvernig við getum sinnt störfum okkar í framtíðinni með minni ferðalögum,“ segir Árni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert