Sumt starfsfólk beðið um að vinna heima

Stjórnarráðið í Lækjargötu.
Stjórnarráðið í Lækjargötu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ýmsar opinberar stofnanir og fyrirtæki hafa gert umtalsverðar varúðarráðstafanir til að verja mikilvæga starfsemi vegna kórónuveirunnar. Sumir reyna að skipta starfsfólki niður í hópa og halda samskiptum í lágmarki og mikið er um að starfsfólkið skiptist á að vinna heima.

Þegar almannavarnir lýstu yfir neyðarstigi virkjaði forsætisráðuneytið viðbragðsáætlun sína. Rósa Erlingsdóttir, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, segir að tilgangurinn sé að koma í veg fyrir að allir starfsmenn ráðuneytisins verði veikir á sama tíma. Það megi ekki gerast, meðal annars vegna þess að forsætisráðuneytið vinni fyrir ríkisstjórnina að undirbúningi og framkvæmd ríkisstjórnarfunda.

Starfsemi forsætisráðuneytisins er í 5-6 byggingum en starfsmenn hafa hist í hádegismat í Stjórnarráðshúsinu. Aðgerðirnar felast meðal annars í takmörkunum á samgangi á milli starfsstöðva. Núna borða allir á starfsstöðvum sínum. Fulltrúar þeirra sækja mat í anddyri Stjórnarráðshússins og nota áhöld sem eru úti á starfsstöðvunum við borðhaldið. Starfsfólkið í Stjórnarráðshúsinu fær skammtað á diskana.

Mikið er notað af spritti og sápu og þurrkað reglulega af hurðarhúnum og öðrum snertiflötum. Dregið hefur verið úr fundum og í staðinn notaður fjarfundarbúnaður. Þar sem tveir eða fleiri vinna saman að verkum skiptist fólkið á um að vinna heima.

Landsnet og Rarik hafa gripið til ráðstafana í því skyni að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar meðal starfsmanna og koma í veg fyrir að starfsemi og þjónusta raskist. Hjá Landsneti er lögð áhersla á að verja stjórnstöðina. Starfsemi beggja fyrirtækjanna er rekin á neyðarstigi og neyðarstjórnir hittast daglega, að því er fram kemur í umfjöllun um kórónuveiruna og áhrif hennar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert