Verklagið sé í fullu samræmi við lög

Stofnunin segist vera að leita að nýjum samstarfsaðila.
Stofnunin segist vera að leita að nýjum samstarfsaðila. mbl.is/Hjörtur

Útlendingastofnun vill árétta að verklag stofnunarinnar við ákvörðun á aldri, sem byggir á heildstæðu mati á aðstæðum einstaklings, frásögn hans, framlögðum gögnum og eftir atvikum aldursgreiningu á tönnum, er í fullu samræmi við ákvæði gildandi laga og reglugerðar um útlendinga.

Þetta segir í tilkynningu frá stofnuninni, en fyrr í dag var greint frá því að HÍ mun ekki framlengja samning sem lýtur að aldursgreiningu á tönnum umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi.

Stofnunin leiti nú að samstarfsaðila til að framkvæma aldursgreiningu á tönnum í þeim tilvikum þar sem slíkt sé nauðsynlegt.

„Þá er rétt að ítreka að ákvörðun á aldri umsækjanda um alþjóðlega vernd felur ekki í sér afstöðu til þess hvort viðkomandi fái hér vernd eða ekki. Aldur er ekki grundvöllur alþjóðlegrar verndar einn og sér en hann er einn þeirra þátta sem litið er til við einstaklingsbundið heildarmat á þörf hvers og eins fyrir alþjóðlega vernd,“ segir enn fremur í tlkynningunni, áður en stofnunin þakkar tannlæknadeild HÍ gott samstarf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert