Bogi fundar með ríkisstjórninni

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur átt í samtölum við forsvarsmenn Icelandair og Isavia í morgun vegna þeirrar stöðu sem komin er upp vegna ferðabanns sem Bandaríkjamenn hafa lagt á öll ríki Schengen, þar með talið Ísland.

Í samtali við mbl.is staðfestir ráðherra að hann muni eiga fund með forsvarsmönnum félagsins í dag og hið sama gerir forsætisráðherra. „Það er ljóst að þetta er kerfislega mikilvægt fyrirtæki og við munum fara yfir stöðuna með þeim,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Samkvæmt heimildum mbl.is mun Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, mæta á ríkisstjórnarfund nú klukkan 12.15 í Stjórnarráðinu, en á þeim fundi stendur til að ræða frekari aðgerðir stjórnvalda til að létta undir með efnahagslífinu í ljósi afleiðinga kórónuveirunnar.

Tveir dagar eru síðan ríkisstjórnin kynnti aðgerðir í sjö liðum en Katrín segir að ákvörðun Bandaríkjastjórnar hafi aukið enn á óvissuna og kalli á frekari aðgerðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert