Framdyr strætisvagna verða lokaðar

Viðskiptavinir Strætó á höfuðborgarsvæðinu eru vinsamlegast beðnir um að ganga …
Viðskiptavinir Strætó á höfuðborgarsvæðinu eru vinsamlegast beðnir um að ganga inn um mið- eða aftari dyr vagnsins eftir helgi þar sem framhurðinni verður lokað sem hluti af ráðstöfunum Strætó bs. vegna samkomubanns og til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. mbl.is/Hari

Framdyrum strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu verður lokað frá og með næsta mánudegi, 16. mars. Ráðstöfunin er gerð af Strætó bs. vegna samkomubanns sem tekur gildi á miðnætti á sunnudag og til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Viðskiptavinir Strætós á höfuðborgarsvæðinu eru vinsamlegast beðnir að ganga inn um mið- eða aftari dyr vagnsins. Þá eru viðskiptavinir hvattir til greiðslu fargjalda með strætókorti eða strætóappi og halda korti eða síma á lofti í átt að vagnstjóra en ganga ekki fram í vagninn til að staðfesta fargjald til vagnstjóra. Þeir viðskiptavinir sem greiða með peningum eða strætómiðum ganga fram í vagninn til greiðslu fargjalds.

Þessar aðgerðir eru sambærilegar viðbrögðum annarra almenningssamgöngufyrirtækja á Norðurlöndum og verða í gildi samhliða samkomubanni, að því er segir í tilkynningu. 

Þá hvetur Strætó alla viðskiptavini til þess að fylgja fyrirmælum yfirvalda um sóttvarnir, vera meðvitaðir um smitleiðir veirunnar og ferðast ekki með almenningssamgöngum ef grunur leikur á smiti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert