Stendur undir nafninu illviðravetur

Gervihnattamynd sem tekin var af Modis yfir landinu föstudaginn 6. …
Gervihnattamynd sem tekin var af Modis yfir landinu föstudaginn 6. mars síðastliðinn. Landið er snævi þakið frá fjöru til fjalla. Ljósmynd/Veðurstofan

Febrúarmánuður var þriðji illviðramánuðurinn í röð á landinu. Og sá fjórði, marsmánuður, gæti bæst í hópinn, en gular viðvaranir voru í gildi á norðanverðu landinu í vikunni. 

„Jú, veturinn hefur verið með illviðrasamara móti – en hann er ekki búinn. Mars er formlega vetrarmánuður líka,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur. Hann hefur ekki trú á að veturinn verði kenndur við veðurfarið, miklu fremur við kórónuveiruna sem nú herjar á heimsbyggðina.

Nýliðinn febrúar var fremur kaldur um land allt. Úrkomusamt var á Norður- og Austurlandi. Samgöngur riðluðust margoft vegna óveðurs. Versta veðrið var þann 14. þegar mikið austanveður gekk yfir landið og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára. Mikið tjón hlaust af veðrinu, einkum á Suðurlandi, Suðausturlandi og á Faxaflóasvæðinu, þar sem veðrið var einna verst. Loftþrýstingur var óvenju lágur yfir landinu í febrúar. Svo segir í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar fyrir febrúar.

Veturinn hefur verið tvískiptur að segja má. Nóvembermánuður var óvenju hægviðrasamur og tíð hagstæð um landið.

Dró til tíðinda í desember

Til tíðinda dró síðan í desember. Mikið norðanóveður gekk yfir landið dagana 10. til 11. desember sem olli miklu tjóni. Verst var veðrið á Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Mikil ísing og fannfergi fylgdu óveðrinu sem olli því að hundrað hross fennti í kaf, skemmdir urðu á rafmagnslínum með tilheyrandi rafmagnstruflunum og mikil röskun varð á samgöngum. Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur á norðanverðu landinu og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember.

Janúar var sömuleiðis mjög illviðrasamur. Meðalvindhraði var óvenju hár og sá hæsti síðan í febrúar 2015. Illviðrisdagar voru óvenju margir, með því mesta sem hefur verið. Úrkoma var vel yfir meðallagi um mestallt land. Mjög snjóþungt var á Vestfjörðum og féllu tvö stór snjóflóð á Flateyri og það þriðja í Súgandafirði þann 14. Samgöngur riðluðust margoft í mánuðinum vegna óveðurs. Þetta eru lýsingar úr tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar yfir þessa mánuði.

Margir tala um að þeir muni ekki aðra eins ótíð. En veðurminni er óglöggt. Ekki þarf að fara lengra en fimm ár aftur í tímann til að finna álíka vetur.

„Vindaveturinn mikli, Belgingur og Rokrassgat hið mikla eru meðal þeirra tillagna sem fram hafa komið um heiti á vetrinum sem nú stendur yfir. Lægðir með tilheyrandi hvassviðri og ófærð hafa sett mark sitt á veturinn,“ sagði frétt á vef Ríkisútvarpsins 11. mars 2015. Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur sagði þar að veturinn væri líklega sá stormasamasti það sem af væri öldinni og á pari við veturna upp úr 1990. Hún taldi þó að fólk liti veðrið ef til vill öðrum augum en fyrir nokkrum árum, meðal annars vegna þess að fleiri legðu fyrir sig útivist og vegna þeirra mörgu ferðamanna sem færu um landið á veturna, ólíkt því sem áður var. Minnst 37 lægðir hefðu farið yfir landið frá 1. nóvember 2014 og sjaldan liðið meiri en þrír dagar milli stormviðvarana og samgöngutruflana. Elín Björk benti þó á að ýmislegt vantaði sem áður hefði einkennt þá vetur sem hefðu verið í minnum hafðir, til að mynda hafís sem náði oft til lands á köldustu vetrum. Það sama á reyndar við um þann vetur sem nú stendur yfir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. mars.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert