Bjarni: Starfsemi Icelandair mun ekki leggjast af

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti um helgina aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti um helgina aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að bregðast við efna­hags­leg­um áhrif­um af út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ótímabært að tjá sig um aðkomu ríkisins að rekstri Icelandair. „Það mun aldrei verða þannig að öll þessi starfsemi mun leggjast af,“ sagði Bjarni hins vegar í viðtali í Kastljósi í kvöld. 

Um 240 starfs­mönn­um verður sagt upp störf­um hjá Icelanda­ir og ná upp­sagn­irnar til flestra hópa inn­an fé­lags­ins.  Jafn­framt verður skerðing á starfs­hlut­falli 92% starfs­manna fé­lags­ins og þeir sem verða áfram í fullu starfi lækka um tugi pró­senta í laun­um. 

„Ég lít á það sem okkar frumskyldu að tryggja greiðar samgöngu við landið,“ sagði Bjarni, en bætti við að staðan sé flókin sökum fjölda ferðabanna og landamæralokana sem eru í gildi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Bjarni sagði Icelandair eitt mikilvægasta, ef ekki það mikilvægasta, í landinu í dag, en sagði ekki tímabært að fullyrða hvort og þá hvernig ríkið kæmi að rekstri þess með einhverjum hætti. „Stjórn og stjórnendur bera ábyrgð á að halda þannig utan um málin að félagið sé að veita réttar upplýsingar til markaðarins og að menn séu að taka ákvarðarnir í samræmi við útlitið þannig það er ekki mitt að taka fram fyrir hendurnar á þeim og segja: Heyrðu, nú er þetta komið gott, nú ætlum við að taka þetta yfir. Við erum bara ekki komin þangað.“  

Bjarni sagði stöðuna sem upp er komin í efnahagslífinu ólíka þeirri sem var í hruninu 2008, ekki síst vegna þeirrar samstöðu sem ríkir nú. „Það er algjör samstaða í landinu. Við erum öll að taka þátt í baráttunni gegn útbreiðslu veirunnar. En við megum ekki láta deigan síga, við verðum að halda áfram, þessi ógn er þess eðlis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert