Reiknaðu út breytingar á launum

Um er að ræða tvö reiknilíkön.
Um er að ræða tvö reiknilíkön. mbl.is/Ófeigur

KPMG hefur opnað reiknivél þar sem reikna má út með einföldum hætti breytingar á launum starfsfólks í kjölfar breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa. Reiknivélina má finna á sérstökum vef KPMG, breytan.is. Reiknivélin er öllum opin en hún er bæði hugsuð fyrir starfsmenn sem þurfa að minnka starfshlutfall sitt sem og fyrirtæki til að skoða einfölduð áhrif á einstaka starfsmenn.

KPMG hefur jafnframt útbúið reiknilíkan fyrir fyrirtæki sem ættu með einföldum hætti að geta metið möguleg áhrif lagabreytinganna á sína starfsemi, ákveði þau að nýta úrræðið sem þeim stendur nú til boða, og borið saman áhrif þess að lækka tiltekin stöðugildi.

„Á óvissutímum sem þessum er mikilvægt að við stöndum öll saman. Starfsfólk KPMG hefur unnið hörðum höndum að því að koma reiknilíkönunum á laggirnar til að hjálpa einstaklingum og fyrirtækjum að meta heildaráhrif er þessari lagabreytingu fylgir og vonandi hjálpa þau við að draga úr áhyggjum einstaklinga og fyrirtækja. Þá þykir mér þetta sýna styrkleika KPMG, en vegna þeirra fjölda ólíku sérfræðinga sem við höfum innanborðs getum við með einföldum hætti veitt fyrirtækjum heildstæða þjónustu hvað varðar lagabreytingar sem þessar. Við þekkjum lögin og áhrif þess á rekstur fyrirtækja.“ segir Soffía Eydís Björgvinsdóttir, lögmaður og einn eigenda KPMG Lögmanna.

Hin ný samþykktu lög fela í stuttu máli í sér að víkkaður er út réttur aðila til greiðslu atvinnuleysisbóta vegna minnkaðs starfshlutfalls. Í því felst að fyrirtæki geta með samkomulagi við starfsmenn minnkað starfshlutfall starfsmanna sinna og starfsmenn fá minni skerðingu á launum en annars hefði verið þar sem hið opinbera mun koma til með að greiða hluta þeirra launa sem vantar upp á.

Frekari upplýsingar um helstu atriði hinna nýju laga eru sem hér segir:

  1. Einstaklingur sem sækir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalligetur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta. Sá réttur tæki til þeirrar fjárhæðar sem næmi hlutfallslegum mismun réttar launamannsins hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram. Þau skilyrði sem eru fyrir hendi eru að fyrra starfshlutfallið hafi verið lækkað hlutfallslega um að minnsta kosti 20% og að launamaðurinn haldi 25% starfshlutfalli hið minnsta.
  2. Þá geta greiðslur frá vinnuveitanda og greiðslu atvinnuleysisbóta samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns.
  3. Skal ekki koma til skerðingar samkvæmt því sem hér að framan segir ef meðaltal heildarlauna launamanns eru undir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf. Ef meðaltal heildarlauna launamanns er yfir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf má skerðing heldur aldrei verða til þess að samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta skv. ákvæðinu nemi samanlagt lægri fjárhæð en 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert