Flestir ferðamenn líklega farnir um mánaðamót

Inneignarnóta vegna COVID sem hægt er að fá hjá ferðaþjónustufyrirtækjum …
Inneignarnóta vegna COVID sem hægt er að fá hjá ferðaþjónustufyrirtækjum tíðkast erlendis. mbl.is/Árni Sæberg

Inneignarnótur sem kaupendur pakkaferða, sem falla niður vegna COVID-19, geta fengið hjá ferðskrifstofum eru sambærilegar og tíðkast víða Evrópu. Neytendastofa greindi frá leiðbeiningum um inneignarnótur og breytinga pakkaferða vegna útbreiðslu kórónuveirunnar fyrir skömmu. 

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir of snemmt að segja til um reynsluna af þessu og hvort neytendur ætli að nýta sér þetta.  

Spurður um fjölda ferðamanna á landinu segist hann ekki vera með tölur yfir slíkt. Eitt er víst að þeir eru ákaflega fáir. „Ef það er einhver mælikvarði þá hef ég ekki séð ferðamann frá því fyrir helgi þegar ég lít út um gluggann á skrifstofunni,“ segir Skarphéðinn og vísar til þess að Ferðamálastofa er til húsa á Geirsgötu í miðbæ Reykjavíkur.  

Hann reiknar ekki með öðru en að allir ferðamenn verði farnir til síns heima um komandi mánaðamót.

Spurður út í komandi tíma segir hann að það muni taka tíma fyrir ferðaþjónustuna að ná sér á strik. Það fari meira eftir því hvernig haldið er á málum varðandi kórónuveiruna á heimasvæði ferðamannanna heldur en hér á landi. 

Hann kveðst ánægður með aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sem kynntur var um helgina því hann eigi eftir að nýtast ferðaþjónustunni líkt og fleirum. „Reynsla á eftir að koma a hvort frekari aðgerða sé þörf. Það er ljóst að við erum að fara að sigla inn í sumarið og útlitið er dauflegt. Ferðaþjónustan ólík öðrum greinum að því leyti að þegar samfélagið fer aftur af stað geta margir náð sér á strik innanlands en ferðaþjónustan ekki eins,“ segir hann.

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert