Flestir þeirra sem eru á spítala í áhættuhópum

Hérlendis hafa flestir þeirra sem lagðir hafa verið inn á Landspítala vegna COVID-19 glímt við undirliggjandi sjúkdóma, offitu eða reykt að staðaldri. Þetta staðfestir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdóma á Landspítalanum. 

Vísir greindi fyrst frá þessu. Már segir í samtali við mbl.is að í raun sé þessi staða sú sama og víðast hvar erlendis. Hérlendis hafa þó einhverjir verið lagðir inn á Landspítala án þess að vera í sérstökum áhættuhópi. 

„Það hefur alveg gerst en þeir lenda síður í vandræðum,“ segir Már. 

Engum þeirra sem hefur farið í öndunarvél hérlendis vegna COVID-19 hefur batnað hingað til en nú eru þrír í öndunarvél á gjörgæslu. Már segir að fólkið hafi þó ekki verið lengi í öndunarvél. 

Líftæknilyf hafa stundum orðið að gagni

Spurður um það hvernig meðferð sé háttað segir Már: 

„Við höfum verið að setja upp meðferðarviðmið þar sem fólk hefur verið sett á sýklalyf og malaríulyf. Svo höfum við gefið sumum líftæknilyf. Þau eru til þess að minnka bólgusvæði í lungunum. Við höfum beitt því til þess að minnka bólgusvæði þar sem það er það sem veldur mestum vandkvæðum fyrir fólkið.“

Líftæknilyfin hafa gefið góða raun í einhverjum tilfellum. „Okkur finnst það klárlega hafa gagnast stundum en það er svolítið erfitt að meta það þegar fólk er enn þá á öndunarvél en við erum að reyna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert