Reykjavíkurborg frestar gjöldum og fellir niður

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reykjavíkurborg ætlar að fresta, fella niður eða leiðrétta gjöld í samræmi við skerðingu þjónustu og þjónustufalls vegna COVID-19. Sömuleiðis ætlar borgin að flýta fyrir og ýta undir fjárfestingar og framkvæmdir, nýsköpun og notkun nýrra tæknilausna og auka fjármagn til mannaflsfrekra viðhaldsverkefna í borginni. 

Þessar aðgerðir eru á meðal þeirra þrettán sem Reykjavíkurborg ætlar að grípa til vegna COVID-19 en á fundi sínum í morgun samþykkti borgarráð fyrstu viðbrögð við heimsfaraldri kórónuveiru með öllum atkvæðum.

„Reykjavíkurborg snertir auðvitað líf þúsunda fjölskyldna á hverjum einasta degi og í hverri einustu viku. Það hefur verið algjörlega magnað að fylgjast með starfsmönnum og yfirstjórninni, hvernig menn hafa eflst við hverja raun og undirstrikað þann metnað sem er alls staðar,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, á blaðamannafundi um aðgerðirnar sem haldinn var í dag. 

Sagði mikilvægt að hlúa að þeim sem verst standa

Þar tóku oddvitar allra flokka sem eiga sæti í borgarráði til máls og var á þeim að skilja að samhugur ríkti um aðgerðirnar. 

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, gagnrýndi þó sérstaklega lækkun fasteignaskatta og spurði hvernig ætti að mæta því tekjutapi sem af því hlýst. 

„Yfirstandandi hamfarir eru ekki tilefni til að þrýsta í gegn óskum nýfrjálshyggjufólks um lækkun skatta á fyrirtækja- og fjármagnseigendur.

Sanna sagði sömuleiðis mikilvægt að hlúa að þeim sem verst standa. „Við megum alls ekki skilja þau eftir.“ 

Frá blaðamannafundinum í dag.
Frá blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðræður við borgina um hjúkrunarrými

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, lagði áherslu á að brýnt væri að viðræður borgarinnar við ríkið snerust fyrst og fremst um uppbyggingu hjúkrunarrýma. 

Eyþór Laxdal Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, þakkaði fyrir gott samstarf á milli flokka vegna aðgerðanna enda mikilvægt að allir stæðu saman á tímum sem þessum.

Hér að neðan eru fyrirhugaðar aðgerðir borgarinnar útlistaðar:

1. Frestun gjalda, niðurfelling og lækkun

Gjöld heimila og fjölskyldna verða felld niður eða lækkuð vegna skertrar þjónustu, sóttkvíar og annarra viðbragða vegna Covid-19. Fyrirtækjum verður gefinn kostur á að fresta allt að þremur gjalddögum fasteignaskatta vorið 2020 og skoðuð önnur frestun og/eða lækkun þegar um er að ræða tímabundið tekjufall, sbr. lið 1 e.

a. Heimili

Leikskólar, grunnskólar og frístund. Gjöld verða lækkuð, felld niður eða leiðrétt í samræmi við skerðingu þjónustu vegna Covid-19, skv. nánari reglum. Þá taka árskort t.d. sundkort og menningarkort mið af skerðingum opnunartíma og gildistími framlengdur sem því nemur.

b. Fyrirtæki

Veittur verði frestur á greiðslu allt að þriggja gjalddaga fasteignaskatta atvinnuhúsnæðis vegna ársins 2020, skv. lögum og nánari reglum. Fasteignaeigendur eru hvattir til að leigjendur þeirra njóti góðs af þeirri frestun líkt og stór fasteignafélög á markaði hafa gefið fyrirheit um.

c. Lækkun fasteignaskatta

Lækkun fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði í Reykjavíkurborg verði flýtt og verði 1,60% á árinu 2021.

d. Frestun leigu

Borgarráð beinir því til fjármála- og áhættustýringarsviðs að móta reglur um frestun eða afslátt af leigu þriðja aðila í atvinnurekstri í húsnæði Reykjavíkurborgar á grundvelli umsókna, vegna tímabundins tekjufalls í ljósi sérstakra aðstæðna.

e. Frestun gjalda

Borgarráð beinir því til fyrirtækja borgarinnar að skoða möguleika á frestun gjalda og/eða lækkun þegar um er að ræða tímabundið tekjufall, skv. nánari reglum.

2. Sveigjanleiki í innheimtu og gjaldfrestum

Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að gera tillögu að tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar sem feli í sér aukinn sveigjanleika varðandi greiðslufresti í ljósi tímabundins tekjufalls og óvissu, sem nái hvoru tveggja til heimila og fyrirtækja. Tillagan á að tryggja að jafnræðis og góðrar stjórnsýslu verði gætt og tekið mið af gildandi lögum. Markmiðið er að auka sveigjanleika í ljósi núverandi ástands, innheimta verði sanngjörn og dráttarvextir og kostnaður í lágmarki um leið og jafnræðis og hagmuna borgarinnar verði gætt. Reglurnar verði lagðar fyrir borgarráð til staðfestingar.

3. Borgarvakt í velferðar- og atvinnumálum

Tölulegum gögnum og staðreyndum um þróun aðstæðna hjá einstaklingum, fjölskyldum og atvinnulífi verður safnað á vettvangi Reykjavíkurborgar næstu mánuði og misseri til að leggja grunn að frekari tillögugerð og aðgerðum sem ýmist verður beint til borgarráðs, fagráða Reykjavíkurborgar, ríkis eða sameiginlegs vettvangs sveitarfélaga eða annarra aðila. Í samráði við hagsmunaaðila verður fylgst með lykilþáttum og áhrifum stöðunnar á atvinnulíf og samfélag, lífskjör og húsnæðismarkað með sérstakri áherslu á börn og menntun þeirra, barnafjölskyldur, fatlað fólk, eldra fólk, atvinnulausa og viðkvæma og útsetta hópa.

4. Ferðaþjónusta og ferðaþjónustutengdar greinar

Stutt verði við eftirspurn eftir heimsóknum ferðamanna til Reykjavíkur um leið og það er metið tímabært.

a. Markaðsátak stjórnvalda og Íslandsstofu

Reykjavíkurborg verði virkur þátttakandi í útfærslu og framkvæmd markaðsátaks stjórnvalda í ljósi Covid-19.

b. Markaðsátak Reykjavíkur

Menningar- og ferðamálasvið útfæri sérstaka markaðssetningu Reykjavíkur sem viðbrögð við hruni í ferðaþjónustu fyrir árin 2020-2021. Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar verði ætlaður að lágmarki 150 milljónir króna. Tillögur liggi fyrir í maí.

5. Nýsköpun og ný tækni

Fjárfestingum í innleiðingu nýrrar tækni hjá Reykjavíkurborg verði flýtt og opnað fyrir aðkomu frumkvöðla og nýsköpunarumhverfisins að lausnaleit á grundvelli nýrrar nýsköpunarstefnu. Tillögur liggi fyrir í maí nk.

6. Skapandi greinar

Haldið verði áfram að skapa skapandi greinum betri skilyrði til vaxtar til lengri tíma með áherslu á að skapa aðstöðu og vinnurými, m.a. í tengslum við nýjan klasa skapandi greina í Gufunesi. Tillögur liggi fyrir í maí nk.

7. Þekkingargreinar

Unnin verði áætlun um frekari uppbyggingu þekkingartengdra greina í samvinnu við Háskóla Íslands, Vísindagarða, Háskólann í Reykjavík og Landspítalann. Tillögur liggi fyrir í maí nk.

8. Menning, listir, íþróttir og viðburðahald

Unnar verði tillögur um aðgerðir og viðspyrnu í menningar-, íþrótta- og listalífi Reykjavíkurborgar í samvinnu við Bandalag íslenskra listamanna, ÍBR o.fl. Tillögur liggi fyrir í maí nk.

9. Markvissar vinnumarkaðsaðgerðir

Nauðsynlegar vinnumarkaðsaðgerðir sem viðbrögð gegn atvinnuleysi verða þróaðar tímalega einsog tilefni verður til. Unnið verði í samvinnu við ríkið og aðila vinnumarkaðarins þar sem sérstaklega verði lögð áhersla á hópa sem skv. greiningum verða illa úti í ástandinu, s.s. einyrkja, fólk af erlendum uppruna og konur. Áhersla verði lögð á að bjóða starfstækifæri, starfsnám og íslenskukennslu og aðra menntun á atvinnuleysisbótum.

10. Flýting fjárfestinga og viðhalds á vegum Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar

Fjárfestingum verður flýtt og viðhald aukið til að auka atvinnu og umsvif í efnahagslífinu þegar á þessu ári. Viðbótarfjárfestingar borgarsjóðs og B-hluta fyrirtækja geta samanlagt orðið um 5 milljarðar króna á árinu og enn meiri árið 2021. Efnt verði til viðræðna við ríkið um kostnaðarhlutdeild, skatta og gjöld í tengslum við framkvæmdirnar.

a. Fjárfestingar borgarsjóðs 

(A-hluta) í nýframkvæmdum og viðhaldi verði auknar um 2,5 milljarða árið 2020 með áherslu á mannaflsfrek og virðisaukandi verkefni.

b. Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög

Verið er að útfæra viðbótarfjárfestingar OR.

c. Félagsbústaðir vinna að áætlun um viðbótar búsetuúrræði og íbúðir.

d. Faxaflóahafnir hafa ásamt Veitum útfært áætlun um orkuskipti í höfnum og munu eiga viðræður við ríkið um að ráðast í verkefnið.

11. Undirbúningi fjárfestingarverkefna á vegum Reykjavíkurborgar verði flýtt

Samkeppnum um skipulag og hönnun fjárfestingarverkefna verði flýtt og gerð deiliskipulags vegna þeirra verði sett í forgang. Þar er meðal annars um að ræða samkeppnir um Samgöngumiðstöð Reykjavíkur á umferðarmiðstöðvarreit, samkeppni um stærra borgarbókasafn í Grófarhúsi, samkeppni um endurnýjun og endurgerð Laugardalslaugar og stúku Laugardalslaugar, samkeppni um nýja skóla, fjölgun ungbarnadeilda og nýrra leikskólaplássa sem hluti af Brúum bilið, markaðskönnun á bílastæðahúsi, samkeppni um Fógeta-torg/Víkurgarð, skipulag nýrra hverfiskjarna í Arnarbakka og Völvufelli og hugsanlega víðar.

12. Undirbúningi fjárfestingarverkefna í samvinnu við ríkið verði flýtt

Breytingar á deiliskipulagi og undirbúningi vegna fjárfestingarverkefna ríkisins sem vilji er til að fari af stað verði sett í forgang, s.s. brýn samgönguverkefni á höfuðborgarsvæðinu , nýjum hjúkrunarheimilum, uppbyggingu á vegum Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Nýs Landsspítala, auk annarra verkefna skv. nánara samkomulagi.

13. Átak í uppbyggingu fjölbreytts og hagkvæms húsnæðis

Til að koma í veg fyrir fyrirsjáanlegan skort á húsnæðismarkaði verði ráðist í nýtt átak í húsnæðis uppbyggingu með áherslu á hagkvæmar íbúðir, almennar íbúðir og öruggt og nægjanlegt framboð lóða og aukins byggingarréttar á grundvelli aðalskipulags Reykjavíkur. Áætlun um lóðaúthlutanir, frekari stofnframlög og húsnæðisuppbyggingu verði uppfærð í samráði við verkalýðshreyfinguna, uppbyggingarfélög án hagnaðarsjónarmiða, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og stjórnvöld. Áfangaskil verði í maí og fullmótuð áætlun liggi fyrir í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert