Erum að vinna alveg sturlaða vinnu

„Það er allt gert til að bakka okkur upp. Ég …
„Það er allt gert til að bakka okkur upp. Ég er til í þetta og vinn með frábærum hópi. Þetta er verkefni þar sem allir eru að leggja sig fram og auðvitað vil ég gera mitt besta,“ segir Kristín Sólveig Kristjánsdóttir, læknir í Danmörku.

Þetta eru skrítnir tímar,“ er það fyrsta sem læknirinn Kristín Sólveig Kristjánsdóttir segir þegar hringt er í hana til Danmerkur. Kristín er í sérnámi í bráðalækningum í Aabenraa sem er sextíu þúsund manna bær á Suður-Jótlandi nálægt þýsku landamærunum.

„Ég vinn hér á bráðamóttökunni, eða réttara sagt ég vann þar þar til fyrir viku að ég var tekin út úr öllu og sett í teymi sem er að búa til kórónudeild. Nú erum við að búa til COVID-19-deild frá grunni. Við erum fjórtán læknar sem hafa setið stíft frá því síðasta mánudag og skipulagt nýju deildina sem verður opnuð á mánudag. Það þarf að huga að því hvernig á að vinna þetta. Í raun þarf að skipuleggja allt frá a til ö,“ segir hún.

„Það verður pláss fyrir 48 COVID-19 sjúklinga, alla á einkastofum. Þarna verður ein göngudeild og ein legudeild, en öll deildin verður einangrunardeild,“ segir hún og nefnir að upptökusvæðið sé álíka stórt og Ísland.

Það er engin uppskrift 

Kristín segir að vinnulag sé svipað og hér á landi að því leyti að öllum aðgerðum sem geta beðið hefur verið aflýst. Einnig verður reynt að afgreiða sem mest í gegnum síma. „Við viljum ekki að fólk með alls konar sjúkdóma komi beint inn á sjúkrahúsið. Í þriðja lagi er það að gerast að fólk er ekki að koma á bráðadeildina eða heilsugæsluna með smotterí, því þar gæti einhver leynst með COVID,“ segir hún.

„Við erum að vinna alveg sturlaða vinnu við það að búa til nýja þessa deild og við höfum engin fordæmi. Það er engin uppskrift. Það fer mikill tími í það hjá hópnum að lesa allt um nýjustu rannsóknir um ýmislegt, eins og hvaða meðferðir virka og hvaða ekki. Þetta er allt að gerast í beinni útsendingu,“ segir hún.

Kristín segir að nóg sé til af öndunarvélum í landinu ef spár ganga eftir um fjölda smitaðra.

„En ef fleiri verða veikir og lengur gætum við lent í því að það vanti öndunarvélar.“

Kristín á von á að komandi vikur verði erfiðar. „Það er allt gert til að bakka okkur upp. Ég er til í þetta og vinn með frábærum hópi. Þetta er verkefni þar sem allir eru að leggja sig fram og auðvitað vil ég gera mitt besta.“

Ítarlegt viðtal er við Kristínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert