Tíu þúsund í sóttkví

Tíu þúsund Íslendingar eru í sóttkví og átta hundruð í …
Tíu þúsund Íslendingar eru í sóttkví og átta hundruð í einangrun. Það getur reynt á þolrifin hjá fjölskyldum. mbl.is/Ásdís

Yfir tíu þúsund Íslendingar halda sig alfarið heima þessa dagana. Sumir hafa greinst með kórónuveiruna og eru í einangrun, aðrir eru í sóttkví vegna umgengni við smitaða og enn aðrir fara sjálfviljugir í sóttkví til að forðast smit. 

Fólkið sem blaðamaður heimsótti tók inniverunni með stóískri ró þótt það hlakkaði til að losna. Það kom í dyragættir eða glugga og var myndað úr fjarlægð. Síðar sló blaðamaður á þráðinn og aldrei þessu vant svöruðu allir við fyrstu hringingu. Eða eins og ein orðaði það: „Fólk er svo hrikalega glatt að heyra í einhverjum! Það er eintóm hamingja að taka símann!“ 

Leitar meira inn á við

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður er ein af þeim sem lentu í sóttkví ásamt fjölskyldu sinni. Vinkona þeirra kom í heimsókn sem greindist stuttu síðar. „Við losnum á föstudaginn eftir viku. 

Meginatriði í sóttkvínni er að koma sér upp rútínu. Við hjónin erum mikið á fundum og erum að kynnast alveg nýju fundafyrirkomulagi. Þetta er áskorun fyrir okkur en gengur ágætlega. Þetta er gott tækifæri til að læra á tæknina. Eins erum við að hjálpa dóttur okkur með heimavinnu en hún er fötluð og þarf á rútínu að halda. Svo erum við að reyna að hreyfa okkur og fara út að ganga,“ segir Þorgerður og segist vel geta sinnt starfi sínu að heiman og er hún í góðu sambandi við aðra alþingismenn. 

Þorgerður Katrín er í sóttkví og tekur því með stóískri …
Þorgerður Katrín er í sóttkví og tekur því með stóískri ró. mbl.is/Ásdís

„En ég viðurkenni að maður dettur í annan rytma, sem er ágætt. Maður leitar meira inn á við, þetta er jú fúlasta alvara.“ 

Eins konar sektarkennd

Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans, veit ekki hvar hún smitaðist af kórónuveirunni. „Ég ákvað að taka þátt í úrtaki hjá Kára. Það kom mér mjög á óvart þegar ég fékk símtal tveimur dögum seinna að ég væri með kórónuveiruna. Það hafði ekki hvarflað að mér því ég hafði ekki verið innan um neinn sem hafði smitast. Ég hef ekki hugmynd hvar ég fékk þetta,“ segir Sara sem er heima í einangrun og kona hennar í sóttkví.

Sara segir að mjög margir hafi þurft að fara í sóttkví eftir að hún greindist. „Það var mjög skrítin tilfinning; eins konar sektarkennd. Þetta voru ekki bara vinir og fjölskylda heldur líka smiðir sem voru að vinna hér heima,“ segir hún.

Sara Dögg Svanhildardóttir tók þátt í úrtaki hjá Kára og …
Sara Dögg Svanhildardóttir tók þátt í úrtaki hjá Kára og var hissa á að hún væri smituð en hún hefur aðeins verið með það sem hún kallar kvefskít. mbl.is/Ásdís

„En ég er heppin með það að ég er ekki lasin; bara verið með kvefskít. Svo er brjálað að gera í vinnunni. Ég og konan mín hittumst ekkert yfir daginn; erum báðar að vinna hvor í sínu herberginu og svo kallar hún annað slagið: „matur!“ Og þá setjumst við hvor við sinn endann á eldhúsborðinu.“ 

Að halda í húmorinn

Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi Riff, nældi sér í veiruna í gönguskíðaferð. Hún er því í einangrun og dætur hennar í sóttkví. „Að vera svona innilokaður er erfitt og það reynir á sambúðina við fjölskylduna, en hún gengur samt oftast vel,“ segir hún.

„Ég er enn með þurran hósta og hef misst allt …
„Ég er enn með þurran hósta og hef misst allt bragð- og lyktarskyn,“ segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi Riff. mbl.is/Ásdís

„Ég er enn með þurran hósta og hef misst allt bragð- og lyktarskyn. Ég er samt heppin að hafa sloppið við að fá hita og önnur einkenni,“ segir hún og segir erfiðast að mega ekki fara út. „Ég er að hugsa um að fara út í garð og anda að mér fersku lofti og sveifla aðeins höndunum. Ég hugleiði á hverjum degi sem er mjög gott. Auðvitað er maður svolítið hnugginn en miðað við marga aðra hef ég það gott. Ég fæ aðstoð úr ýmsum áttum og finn fyrir miklum stuðningi og reyni að halda í húmorinn og gleðina; það er það mikilvægasta,“ segir hún og kíkir út um gluggann ásamt Önnu dóttur sinni.

Rætt er við fleira fólk í sóttkví í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert