ÍE ætlar að hefja skimanir um allt land á næstu dögum

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Mynd/mbl.is

„Hugmyndin er sú að skima um allt land. Ætli við byrjum ekki í Vestmannaeyjum og á Austurlandi og svo á Norðurlandi. Við ætlum að senda pinna út á land til þeirra sem segjast geta tekið sýni, ætli það verði ekki á morgun eða hinn,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is.

Skimun Íslenskrar erfðagreiningar fyrir kórónuveirunni í Turninum í Kópavogi stöðvaðist tímabundið þegar sýnatökupinnar voru farnir að vera af skornum skammti hér á landi en eftir að fleiri pinnar fundust á Landspítalanum og í ljós kom að pinnar frá Össuri reyndust nothæfir hófst skimunin á nýjan leik af fullum krafti.

Ekki er þó hægt að bóka tíma í skimun þar sem nú er verið að taka sýni úr fólki sem átti bókaðan tíma en komst ekki vegna skorts á pinnum. „Það verður hægt að opna fyrir bókanir aftur mjög fljótlega, þetta gengur eins og í sögu,“ tekur Kári fram og segir að fjöldi sem greinist með COVID-19 sjúkdóminn sé á bilinu 0,5 til 1% þeirra sem koma í sýnatöku.

Nú skiptir máli að skoða hvað veldur alvarlegum veikindum

Raðgreining á sýnum hélt þó áfram á meðan ekki var hægt að taka ný sýni og hafa þær sýnt fram á að minnsta kosti 40 stökkbreytingar á veirunni. Þá hefur að minnsta kosti einn einstaklingur greinst með tvö afbrigði af henni.

„Það sem skiptir máli núna er ekki bara að sjá allan þennan fjölbreytileika í veirunni heldur að byrja að skoða hvort það eru einhver tengsl á milli breytileika í erfðamengi veirunnar og þess hvernig fólk fer út úr sjúkdómnum,“ segir Kári og útskýrir nánar:

„Sumir fá milt kvef en aðrir enda í öndunarvél. Spurning er hvað það er sem gerir það að verkum að menn fara svona misjafnlega út úr veirunni. Einn möguleiki er að það eigi rætur að rekja í mismunandi raðir í erfðamengi veirunnar og það búi til mismunandi svar fólks sem sýkist. Hinn möguleikinn er sá að það sé breytileiki í erfðamengi fólksins eða einhver samblanda af þessu tvennu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert