Vill kanna ástæður veikinda

Sýnataka vegna skimunar fyrir kórónunveiru.
Sýnataka vegna skimunar fyrir kórónunveiru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir mikilvægt að skoða hvort einhver tengsl eru á milli breytileika í erfðamengi kórónuveirunnar og þess hvernig fólk veikist.

Við raðgreiningu sýna hjá fyrirtækinu hafa komið í ljós að minnsta kosti 40 stökkbreytingar á veirunni og að minnsta kosti einn einstaklingur hefur greinst með tvö afbrigði af henni.

„Það sem skiptir máli núna er ekki bara að sjá allan þennan fjölbreytileika í veirunni heldur að byrja að skoða hvort það eru einhver tengsl á milli breytileika í erfðamengi veirunnar og þess hvernig fólk fer út úr sjúkdómnum,“ segir Kári og útskýrir nánar:

„Sumir fá milt kvef en aðrir enda í öndunarvél. Spurning er hvað það er sem gerir það að verkum að menn fara svona misjafnlega út úr veirunni. Einn möguleiki er að það eigi rætur að rekja í mismunandi raðir í erfðamengi veirunnar og það búi til mismunandi svar fólks sem sýkist. Hinn möguleikinn er sá að það sé breytileiki í erfðamengi fólksins eða einhver samblanda af þessu tvennu.“

Íslensk erfðagreining er að undirbúa það að skima fólk víðar en á höfuðborgarsvæðinu. Kári nefnir Vestmannaeyjar og Austurland sem staði sem hugsanlega yrði byrjað á og Norðurland kæmi þar á eftir. Enn er verið að taka sýni úr fólki sem átti bókaðan tíma í Turninum í Kópavogi en ekki var hægt að afgreiða vegna skorts á pinnum. Kári segir að opnað verði fyrir bókanir mjög fljótlega.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert