Ljúka skimun á tveimur dögum í stað þriggja

Gámum hefur verið komið upp í Eyjum til að nýta …
Gámum hefur verið komið upp í Eyjum til að nýta fyrir sýnatöku. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

„Þetta gengur hraðar en við áttum von á. Við byrjuðum á því klukkan fjögur að taka sýni hjá þeim sem áttu að koma á laugardaginn. Ætli við verðum ekki búin að taka sýni úr þeim fyrir klukkan níu í kvöld,“ segir Hjört­ur Kristjáns­son, um­dæm­is­lækn­ir sótt­varna á Suður­landi.

Skimun­ vegna kór­ónu­veirunn­ar hófst á bíla­stæðinu við íþrótta­húsið í Vestmannaeyj­um klukk­an 10 í morg­un. Ríflega þúsund manns bókuðu sig í skimun í Eyjum. Upphaflega var gert ráð fyrir að skimunin stæði yfir í þrjá daga en útlit er fyrir að það taki einungis tvo daga, slíkur er gangurinn í Eyjum.

Leiðinleg veðurspá fyrir laugardaginn

Veðurspáin fyrir laugardaginn er ekkert sérstök í Eyjum en spáð er allt að 22 m/s um hádegisbilið. Þess vegna var ákveðið að freista þess að klára verkefnið á tveimur dögum í stað þriggja. Sett­ir hafa verið upp gám­ar á bíla­stæðinu og ekur fólk á bíl­um sín­um þangað og heilbrigðisstarfsfólk tekur sýnin.  

Fyrst í morgun voru tekin sýni úr þeim sem eru þegar í sóttkví í Eyjum og höfðu pantað tíma. Þegar því var lokið voru tekin sýni úr hinum sem höfðu óskað eftir því.

Hluti sýnanna sem voru tekin í dag hefur þegar verið sendur frá Eyjum til Íslenskrar erfðagreiningar til greiningar. „Við nýttum tækifærið og sendum sýnin með sjúkraflugi til Reykjavíkur í dag,“ segir Hjörtur. 

Hann vonast til að hægt verði að ljúka verkinu á morgun og senda öll sýni frá Eyjum samdægurs, en það fari þó allt eftir veðri og vindum. 

„Allir leggjast á eitt og þetta hefur gengið eins og í sögu,“ segir hann.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert