Takast í sameiningu á við vanda norrænna ferðamanna

Fjarfundur norrænu utanríkisráðherranna í gær.
Fjarfundur norrænu utanríkisráðherranna í gær. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Utanríkisráðherrar Norðurlandaþjóðanna fimm hafa átt gott samstarf undanfarið eftir að kórónuveirufaraldurinn breiddist út einkum á sviði borgaraþjónustu. Í gær áttu þeir fjarfund þar sem ánægju var lýst með samheldnina. 

„Gott dæmi um vel heppnað verkefni af þessu tagi var borgaraflug á vegum danskra stjórnvalda frá Líma í Perú í gær, þar sem stór hópur norrænna ríkisborgara, þar á meðal einn Íslendingur, komst áleiðis til síns heima.“ Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. 

„Við höfum tekist í sameiningu á við þann vanda sem norrænir ferðamenn í fjarlægum löndum hafa staðið frammi fyrir,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um samstarf Norðurlandanna í tilkynningu.

„Það eitt að deila upplýsingum um hugsanlegar lausnir er mikilvægt en okkar samvinna hefur gengið lengra, við komum hvert og eitt fram við borgara hinna ríkjanna sem okkar eigin og eins og gefur að skilja skiptir það ekki síst máli fyrir Ísland, sem rekur fæst sendiráð á erlendri grund. Okkar fólk hefur fengið aðgang að neyðarflugi á vegum hinna norrænu landanna og það er því óhætt að lýsa yfir sérstakri ánægju með það samstarf og samráð sem hefur átt sér stað síðustu daga og vikur,“ segir Guðlaugur ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert