„Það verður þess virði að bíða aðeins eftir þessu“

Vigdís Jakobsdóttir stjórnandi Listahátíðar.
Vigdís Jakobsdóttir stjórnandi Listahátíðar. mbl.is/Valgarður Gíslason

Listahátíð í Reykjavík verður ekki aflýst heldur verður haldin í ár eins og til stóð en þó með öðru sniði en ætlað var, vegna kórónuveirufaraldursins. Það stendur því áfram til að halda með veglegum hætti upp á fimmtíu ára afmæli Listahátíðar.

Undirbúningur myndarlegrar afmælishátíðar hefur staðið yfir í nær tvö ár og átti hún að fara fram dagana 6. til 21. júní. Í tilkynningu sem barst í gær frá Listahátíð segir að samningar hafi verið gerðir við „mikinn fjölda innlendra og erlendra listamanna um glæsilega dagskrá. Nú hefur Covid-19-faraldurinn sett strik í þær áætlanir líkt og flest annað í samfélaginu“.

Þá segir að Listahátíð vilji hvorki breðast því listafólki sem samningar hafa verið gerðir við né „svíkja íslenskt samfélag um stórkostlega hátíð sem búið var að leggja svo mikið í að skipuleggja“. Fordæmalausir tímar kalli á fordæmalausar leiðir og gert hafi verið samkomulag við listafólk, samstarfsstofnanir og viðburðastaði um að birta dagskrá hátíðarinnar í heild á vefsíðu Listahátíðar í dag, föstudag, líkt og upprunalega hafi verið gert ráð fyrir. Þar mun koma fram hvaða viðburðir verða á hátíðinni í ár, hvaða listafólk stendur að baki þeim og hvar þeir verða haldnir. Hins vegar er farin sú óvenjulega leið að birta dagskrána alfarið án dagsetninga.

Áhugasamir á póstlista

Listahátíð 2020 verður því haldin – jafnvel þótt það taki heilt ár að koma henni til skila, segir í tilkynningunni. Hver viðburður verður tímasettur þegar öruggt þykir og íslenskt samfélag verður tilbúið til þess að taka við honum. Í sumum tilfellum gæti það orðið strax í sumar en bíða þurfi lengur eftir öðrum. Á vefsíðu Listahátíðar verður hægt að skrá sig á póstlista fyrir hvern viðburð til að missa ekki af því þegar tilkynnt verður um dagsetningar.

Gæti ekki verið stoltari

„Allt frá stofnun Listahátíðar fyrir fimmtíu árum hefur markmið hátíðarinnar verið „að efla menningar- og listalíf á Íslandi, almenningi til heilla“. Það væri sannarlega ekki almenningi til heilla að stefna stórum hópum fólks saman í júní á þessu ári,“ sagði Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar, í gær um breytt fyrirkomulag á hátíðinni. „Það er því ljóst að við verðum að breyta fyrirætlunum okkar um tímasetningu. Það væri hins vegar heldur ekki almenningi til heilla að slá hátíðina alfarið af og því förum við þessa óvenjulegu leið – að tilkynna heildardagskrá hátíðarinnar án dagsetninga. Eftir því sem tímanum vindur fram og aðstæður skýrast munum við svo tilkynna tímasetningar viðburða,“ sagði hún.

Og Vigdís bætti við: „Ég gæti ekki verið stoltari af þeirri dagskrá sem við höfum sett saman fyrir Listahátíð í ár. Þarna mætast stórir alþjóðlegir listviðburðir á heimsmælikvarða og margt af því allra áhugaverðasta sem er að gerast í grasrótinni hér heima. Það verður þess virði að bíða aðeins eftir þessu!“

Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari er meðal þeirra sem koma fram …
Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari er meðal þeirra sem koma fram á Listahátíð í sumar. mbl.is/Einar Falur
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert