Hápunktur álags í heilbrigðiskerfinu varir lengur

Alma D. Möller landlæknir. Hún biðlar til hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða …
Alma D. Möller landlæknir. Hún biðlar til hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða að drífa sig vestur ef þeir hafi tök á því. Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir að við nálgumst brátt hápunktinn í greiningum á COVID-19 þá kemur hápunkturinn í heilbrigðiskerfinu ekki fram fyrr en sjö til tíu dögum síðar og varir hápunktur álagsins þar lengur en hápunktur greindra smita. Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Ölmu D. Möller landlæknis á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar í dag. 

Alma sagði að þung staða væri á heilbrigðisstofnun Vestfjarða en mikið álag væri í Vestmannaeyjum, á Hvammstanga, Bolungarvík og Ísafirði. 

„Faraldurin er enn í þessum hæga línulega vexti. Okkur hefur tekist að sveigja hann af þessum ferli veldisvaxtar. Við höldum að við förum að nálgast hápunktinn í greiningu smita en þá þurfum við að muna það að hápunkturinn í heilbrigðiskerfinu kemur ekki fyrr en viku til 10 dögum síðar og að álagið mun haldast innan heilbrigðiskerfisins vegna þess að þeir sem liggja þar inni þurfa að vera um töluverðan tíma,“ sagði Alma. 

Smit innan hjúkrunarheimilis

Smit hafa komið upp innan hjúkrunarheimilisins Bergs á Bolungarvík og biðlar Alma til hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða sem tök hafa á að fara vestur að gera það. 

„Það er mikið álag í nokkrum sveitarfélögum. Vestmannaeyjum, Hvammstanga, Bolungarvík og Ísafirði og þar hafa komið upp hópsýkingar. Á heilbrigðisstofnun Vestfjarða er þung staða. Það hefur greinst smit innan hjúkrunarheimilisins Bergs og þar eru starfsmenn í sóttkví og þar er erfitt að manna. Í samráði við forstjóra, Gylfa Ólafsson, þá biðlum við til hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða sem tök hafa á að fara vestur að gefa sig fram og leggja lið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert