50 menn að störfum í alla nótt

Þrír snjóbílar voru kallaðir út um miðnætti í gærkvöld til …
Þrír snjóbílar voru kallaðir út um miðnætti í gærkvöld til viðbótar við fjölda jeppa sem þegar var að störfum við að koma fólki til hjálpar í mjög slæmri færð í Árnessýslu. Björgunarstarf stendur enn yfir. Ljósmynd/Þröstur Njáls

Um 50 björgunarsveitarmenn voru að störfum í alla nótt og fram undir morgun í Árnessýslu. Unnið var að því að að koma fólki til aðstoðar sem sat fast í stórhríð og vonlausu skyggni í bílum sínum á vegum úti.

Á köflum varð skyggnið 1-2 metrar svo að mjög hægt gekk að komast úr stað. Ofan á það bættist mikil úrkoma sem varð í sumum tilvikum til þess fólk sat alveg fast, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Stormurinn sótti í sig veðrið með kvöldinu í gær og upp úr miðnætti voru kallaðir til þrír snjóbílar björgunarsveitarinnar til viðbótar við jeppana sem fóru um og komu fólki til bjargar. Sums staðar var ekki unnt að hjálpa fólki af stað og var fólk þá ferjað heim á leið og bílar skildir eftir.

Björgunarsveitarmenn eru víða enn að störfum þó að sumir séu farnir heim að hvíla sig. Veðrið er ekki gengið niður en það versta á að fikra sig norður á bóginn með deginum. Frá Siglufirði hafa borist tilkynningar um fok.

Sömuleiðis hefur heilbrigðisstarfsfólk víða um land verið keyrt í vinnuna af björgunarsveitarmönnum, læknar sem hjúkrunarfræðingar.

Fólk er hvatt til þess að vera ekki á ferð. Lokað er um Hell­is­heiði, Þrengsli, Suður­strand­ar­veg og Mos­fells­heiði. Þar er stór­hríð. Þess­ir veg­ir verða vænt­an­lega ekki opnaðir fyr­ir en líður á dag­inn, miðað við spá. Einnig er lokað um Kjal­ar­nes.

Alls staðar á landinu er enn í gildi appelsínugul viðvörun vegna stórhríðarinnar, nema á höfuðborgarsvæðinu, þar sem viðvörunin er gul.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert