Akstri Strætó á landsbyggðinni aflýst

mbl.is/Hari

Mjög líklegt er að öllum akstri á landsbyggðinni verði aflýst vegna veðurs í dag en lokað er um Hellisheiði, Þrengsli og Suðurstrandarveg. Þessir vegir verða ekki opnaðir fyrr en vel er liðið á daginn miðað við veðurspá.

Vonskuveður gengur yfir landið í dag. Ekkert ferðaveður er á landinu og fjölmargir vegir eru ýmist ófærir eða lokaðir. Líklegt er að vegir verði lokaðir fram til kvölds eða jafnvel til fyrramáls miðað við veðurspá, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Víða er mjög hvasst á Vesturlandi og blindbylur þar sem skefur og verður svipað í dag. Ófært er á Svínadal. Vegurinn um Fróðárheiði er lokaður vegna veðurs sem og Bröttubrekku og Holtavörðuheiði.

Ófærð og stórhríð er um mestalla Vestfirði og verður það þannig í dag. Víða er stórhríð á Norðurlandi og Norðausturlandi og vegir ófærir eða lokaðir og verður ástandið svipað í dag.

Víða er hríðarveður á Austurlandi. Fjarðarheiði er lokuð en stórhríð er á Fagradal og ekki ferðaveður og verður það þannig fram eftir degi. Verið er að opna veginn milli Reyðarfjarðar og Hafnar. Ekkert ferðaveður er á Suðurlandi vegna hvassviðris, snjókomu eða skafrennings og slæms skyggnis. Ófært í uppsveitum og er þjóðvegur 1 lokaður undir Eyjafjöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert